Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

538. mál
[15:33]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að þakka hv. þingmanni fyrir þessa ágætu ræðu. Við deilum ekki sömu sýn og ekki alveg sömu skoðun á þessu máli. Við vissum það svo sem fyrir þennan þingfund þannig að það kom ekki á óvart.

Mig langar aðeins að forvitnast og spyrja þingmanninn. Við í atvinnuveganefnd fengum 15. febrúar, frá skrifstofu sjávarútvegs í matvælaráðuneyti, minnisblað sem er í gögnum málsins. Þar er svarað fyrirspurn um minnisblað frá Hafrannsóknastofnun um áhrif stærri skrúfu og meira afls á CO2-losun frá botnvörpu og samanburð á þeirri losun við þann sparnað í CO2-útblæstri sem fæst við stærri skrúfu.

Þar er svarað: „Stærð skrúfu hefur engin áhrif á hafsbotninn og losun CO2. En stærri skrúfa getur dregið verulega úr orkunotkun eða allt að helmingi.“ Síðan er því svarað að þetta fjalli ekki um breytingar á veiðarfærum.

Um áhrif stærri skrúfu á lífríkið innan viðmiðunarlínu er svarið: „Stærri skrúfa skipa hefur engin áhrif á lífríki, hvorki utan eða innan viðmiðunarlínu.“

Þetta eru þær upplýsingar sem nefndin hefur frá fagráðuneytinu sem væntanlega hefur leitað til sinna undirstofnana varðandi þetta svar. Ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi önnur gögn sem staðhæfi eitthvað annað og hvar þau séu því að þetta eru svörin sem við höfum fengið frá okkar færustu vísindamönnum í þessum málum.