Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

538. mál
[15:37]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að eyða öllum mínum tíma í þetta. Mig langar samt að segja um þessi svör sem bárust að þótt þau séu tvær línur treysti ég okkar vísindafólki til þess að á bak við þær séu upplýsingar og rannsóknir sem styðja svar stofnunarinnar.

Ég treysti þessu fólki fullvel til að geta svarað þessum spurningum. Ég tel svörin vera fullnægjandi varðandi að fá hráu gögnin sem þarna liggja á bak við. Ég er viss um að það er örugglega hægt fyrir hv. þingmann og atvinnuveganefnd að fá þau gögn en þau breyta væntanlega ekki þeirri niðurstöðu sem kemur fram og stendur í þessu ágæta minnisblaði.

Það er ágætt að nefna það að á sama tíma og menn kalla eftir því að það vanti frekari gögn, rannsóknir og upplýsingar, þá finnst mér svolítið hæpið að menn geti staðið í pontu á Alþingi og sagt að menn séu að losa mun meira.

Ég skil ekki alveg hvernig hv. þingmaður getur staðið á þeirri fullyrðingu sinni að menn séu að losa meira ef sami þingmaður stendur hér og segir að það vanti gögn til að styðja hvort skipin losi meira eða ekki. Ég ætla bara að benda mönnum á að þeir þurfa að gæta samræmis þegar þeir koma í pontu á Alþingi.