Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

538. mál
[16:01]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Já, ég er virkilega sátt með að við skulum róa á sömu mið. Það er bara þannig. Ég skil af öllu hjarta hvað hv. þingmaður sagði í ræðunni.

Við horfum upp á þessa samþjöppun í greininni. Við höfum upplifað hér í gegnum starfið, ég í fimm ár á þingi, hversu einbeittur vilji stórútgerðarinnar er að sölsa undir sig alla smábátaútgerðina. Þeir vilja losna við þessi litlu 5,3% af heildarpottinum sem er verið að veita til smábátaútgerðarinnar og hirða þau sjálfir. Þetta er í rauninni þyngra en tárum taki. Núna, eins og hv. þingmaður veit, erum við að slá hér í nýja Verbúð. Yfir 70% þjóðarinnar tala um spillingu í þessu kerfi, spillingu í sjávarútvegi. En nú á að fara að kvótasetja grásleppu. Það er vitað að stærri hluti strandveiðisjómanna nýtir sér þá búbót þann stutta tíma sem gefur á grásleppuna. Að koma með togskip í þessu tilviki, hreinlega upp í kálgarð, það er með hreinum ólíkindum.

Ég veit ekki hvort ég sé svona ofboðslega fyndin að hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir fer að skellihlæja að mér. Ég vona að það sé það.