Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 100. fundur,  27. apr. 2023.

stjórn fiskveiða.

539. mál
[16:25]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Gísli Rafn Ólafsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni fyrir gott andsvar. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég sá alveg fyrir að flutningabifreiðar yrðu komnar en það er kannski af því að ég hef fylgst ansi náið með þessum geira. Ég held að þessi eini bátur sem mun kannski koma núna á næsta ári sé svipaður og flugvélin sem hæstv. forsætisráðherra fékk að fljúga með í nokkrar mínútur og lýsti því að hafa verið mjög hrædd. Við erum ekki komin í eða byrjuð á orkuskiptum í sjávarútvegi eða flugi bara af því að þau hafa átt sér stað í einum báti. Kannski væri ágætt að ríkið smíðaði einn bát og gerði þetta til að prófa, kannski er betra að vera með sýnishorn og dæmi.

Við erum aðallega að benda á það í þessu nefndaráliti að við þurfum að passa að þetta verði ekki til þess að við séum að haka í boxin um að við séum byrjuð á einhverju og komin í gang með það. Nei, einn bátur af öllum þeim bátum sem fara hér út, öllum togurunum — þetta er eins og við segðum að þegar fyrsti rafbíllinn kæmi værum við komin með orkuskipti í einstaklingssamgöngum. Þróunin í tækninni mun verða hröð og er nú hraðari, það er alveg satt, en við þurfum að passa að byrja á réttum enda, sérstaklega þegar kemur að innviðunum, vegna þess að án innviðanna mun enginn gera svona báta. Annars ertu bara með snúru heiman frá þér og niður að höfn. Það er ekki að fara að ganga.