Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

matvælaöryggi og stuðningur við landbúnað.

[14:31]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ingibjörgu Isaksen kærlega fyrir að setja málefni landbúnaðarins á dagskrá. Ég vil minna á það til að byrja með að hér fyrir þinginu liggur landbúnaðarstefna fyrir Ísland og það er auðvitað alveg gríðarlega mikilvæg stefnumörkun sem alþingismenn geta haft áhrif á því að þar er verið að marka sýn til framtíðar. Þá er tækifæri líka til að taka þessi mál upp á borðið sem ég leyfi mér að segja, eftir að hafa verið á ferð um landið og átt fundi um sjálfbært Ísland, að eru landsmönnum öllum mjög ofarlega í huga. Ríkisstjórnin hefur sýnt í verki að hún stendur með landbúnaði, hvort sem horft er til síðasta kjörtímabils þegar við stórjukum framlög til innlendra grænmetisbænda eða þegar við gripum til sérstakra framlaga vegna hækkana á áburðarverði og áhrifum innrásarinnar í Úkraínu á matvælakeðjuna og í núverandi fjármálaáætlun sem nú liggur fyrir þinginu er gert ráð fyrir 2 milljarða kr. auknum útgjöldum til að efla kornrækt. Þá er ég ekki búin að nefna það verkefni sem hæstv. matvælaráðherra hefur boðað, sem ég vona svo sannarlega að skapist gott samstarf við bændur um, til að vinna að nýjum aðgerðum til að útrýma riðu. En ég vil segja að innlendur landbúnaður er gríðarlega mikilvægur. Við höfum markað okkur stefnu hér á þingi ekki bara um fæðuöryggi heldur matvælaöryggi og hv. þingmaður nefndi hér sýklalyfjaónæmi og við lögðum af stað í sérstaka vinnu í samvinnu heilbrigðisráðuneytis og matvælaráðuneytis til að sporna gegn sýklalyfjaónæmi. Hv. þingmaður spyr: Þarf ekki að gera meira? Ég held að við höfum mikil tækifæri í landbúnaðarstefnunni en ég held líka að við getum stillt betur saman strengi í stjórnsýslunni. Ég nefni bara eitt dæmi sem eru merkingar. Ég held að því miður séum við enn með ófullnægjandi ástand í þeim efnum þar sem upprunalönd eru (Forseti hringir.) gjarnan merkt með nánast smásæju letri en fánaröndin jafnvel notuð til þess nánast að villa um fyrir neytendum.