Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

matvælaöryggi og stuðningur við landbúnað.

[14:33]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið og tek undir áhyggjur hans varðandi upprunamerkingu matvæla. En staðan er alvarleg og þarfnast bóta ef við viljum að innlend matvælaframleiðsla haldi áfram. Staðan er í rauninni verri en viðurkennt er og afkoma bænda fer dvínandi. Kúabú berjast í bökkum og margir kjósa að hætta. Kynslóðaskipti innan bújarða eru nú varla möguleg með tilheyrandi skuldahlekkjum og því er nýliðun nær engin. Stórtækur innflutningur kjötafurða sem framleiddar eru undir öðrum og minni kröfum en hér á landi er lamandi og áhrifin verða óafturkræf ef ekki verður gripið til aðgerða.

Öflugur landbúnaður er þýðingarmikill fyrir fæðuöryggi í heiminum þar sem aðfangakeðjur eru ótryggar og ýmsar ógnir steðja að. Það má segja að margt hafi verið gert en þjóðin þarf að taka afstöðu, við hér í þinginu þurfum að taka afstöðu um hvernig land við viljum byggja. Vill þjóðin allt sitt kjöt erlendis frá, kjöt sem uppfyllir ekki sömu kröfur og íslensk framleiðsla stenst? Hvernig land viljum við byggja? Land sem er tómlegt þar sem matvælaframleiðsla er af skornum skammti eða land þar sem tækifærin í byggðunum blómstra? (Forseti hringir.) Ég veit að mikið hefur verið gert á þessu kjörtímabili í tengslum við landbúnað (Forseti hringir.) en ég tel afar mikilvægt að málin verði tekin saman í starfshópi og unnið markvisst að aðgerðum sem virka því að við heyrum mikið ákall frá landbúnaðinum og bændum í landinu öllu.