Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

415. mál
[15:21]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (ber af sér sakir):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og viðurkenni að ég sit ekki í hv. efnahags- og viðskiptanefnd en finnst málið engu að síður virkilega áhugavert. Ég velti fyrir mér af framsögu hv. þingmanns — ég get nefnilega tekið undir það að þegar umræðan skapaðist um þetta á vettvangi Evrópuþingsins á sínum tíma að þá fannst mér það svolítið fjarstæðukennt að flokka kjarnorku og gas undir þessa grænu orkuframleiðslu. Verandi ekki sérfræðingur á því sviði þá er það svolítið fjarlægt okkur að hugsa með þeim hætti, sérstaklega þar sem við erum svo lánsöm að búa hér á Íslandi þar sem við getum framleitt alvöru sjálfbæra græna orku. Eftir að orkukrísan brast á í Evrópu, eftir innrás Rússa í Úkraínu, hefur umræðan orðið kannski fyllri og meiri og maður áttar sig á því að kjarnorka og gas, þ.e. sérstaklega kjarnorkan, er þó alla vega miklu, miklu betri kostur en að brenna jarðefnaeldsneyti og áhrifin á umhverfið og loftslagsmálin eru miklu minni af því.

Þannig að ég spyr í rauninni: Er hv. þingmaður með þessu að segja að það sé mjög óæskilegt að í Evrópu sé kjarnorka og/eða gas nýtt? Telur hv. þingmaður þá eða þingflokkur hv. þingmanns að það sé raunhæft að við náum þeim markmiðum sem við höfum sett okkur um losun eingöngu með því að nýta það sem í okkar huga er raunverulega sjálfbær og græn orkuframleiðsla? — Já, byrjum á þessu.