Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

415. mál
[15:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur hér fyrir ræðu sína. Mér finnst þessi málflutningur hv. þingmanns vera kominn svona út um allan völl. Hér var málið tekið aftur til nefndar til þess m.a. að kanna það hvort Ísland gæti sett lög eða ætti að innleiða jarðgas eða kjarnorku hér inn í okkar löggjöf. Því hefur verið svarað alveg skýrt að það er ekki hægt.

Í þessu frumvarpi sem ég tel mjög gott erum við að tala um að koma upp flokkunarkerfi í kringum sjálfbærar fjárfestingar. Í 70 ár hefur kjarnasamruni verið nýttur til raforkuframleiðslu. Það er ekki hægt að framleiða meiri orku en með þessum hætti. Alla vega hefur okkur mannkyninu ekki tekist það enn sem komið er. Þetta er ein besta leið til að framleiða kolefnislausa orku. Því hefur verið haldið fram af mörgum vísindamönnum og við vitum að mjög margir vísindamenn úti um allan heim vinna mjög hart að því að leysa orkuvanda mannkyns einmitt með kjarnasamruna. Ef við myndum nú taka þetta út fyrir sviga þá gætu fyrirtæki ekki fjárfest t.d. í spennandi þróunarverkefnum hvað þetta varðar.

Því vil ég spyrja hv. þingmann: Leggst hún algerlega gegn því að þessi tækni verði þróuð til framtíðar?