Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

415. mál
[15:30]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki enn þá búið að finna leið til að ganga frá kjarnorkuúrgangi þannig að komandi kynslóðum stafi ekki hætta af honum. Þannig að nei, mér finnst það ekki vera æskileg orkuvinnsla til framtíðar, sérstaklega í ljósi þess að það eru til aðrar og betri leiðir til að vinna orku á sjálfbærari hátt. Það að það sé nauðvörn núna að nota kjarnorkuver frekar heldur en kolaver þýðir ekki að við eigum að viðurkenna kjarnorkuver sem sjálfbæra fjárfestingu vegna þess að sjálfbærni felur í sér að við séum að nota auðlindirnar á ábyrgan hátt þannig að það komi ekki í veg fyrir að framtíðarkynslóðir geti líka notið góðs af auðlindunum. Með því að framleiða úrgang sem engin leið er til að vinna úr á öruggan hátt sem við vitum að heldur áfram að vera til, jafnvel í árþúsundir eftir að við erum hætt að nota hann, er ekki sjálfbært. Við erum bara að senda reikninginn á framtíðarkynslóðir með kjarnorkunni.

En vegna þess að hv. þingmaður talaði um að málflutningur minn væri út um víðan völl og að það hefði komið í ljós að það væri ekki hægt að breyta þessu þannig að við mundum gera fyrirvara við að gera kjarnorku- og gasvinnslu að sjálfbærum fjárfestingum, þá get ég ekki tekið undir að það sé bara ekki hægt. Ég lýsti því bara ágætlega í minni ræðu að það er bara forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar að berjast fyrir lækkun á flugfargjöldum í staðinn fyrir að beita sér fyrir því að sjálfbærar fjárfestingar séu rétt skráðar og á faglegum forsendum. Þetta er bara forgangsröðun og stefnumörkun. Þetta er alveg hægt. Það er bara ekki vilji fyrir því og það er það sem ég var að segja í minni ræðu ef það var ekki algerlega skýrt. Það er ekki vilji fyrir því að berjast fyrir því að upplýsingar um sjálfbærar fjárfestingar séu réttar vegna þess að okkur langar meira að berjast fyrir því að lækka álögur á flugsamgöngur.