Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

415. mál
[15:35]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég átta mig alveg á því hvað hv. þingmaður var að segja. Ég er bara ósammála því að það sé ekki hægt. Ég var að segja að það er ákveðin stefnumótun, það er forgangsröðun að ákveða að það sé ekki hægt. Við fengum minnisblað frá ráðuneytinu þar sem því var haldið fram að það hefði ekki verið kannað hvaða áhrif það hefði ef við myndum reyna að gera einhverja fyrirvara við þetta og við værum þar að auki að, eins og þeir sögðu á sama tíma, með leyfi forseta:

„Á sama tíma er ljóst að íslensk stjórnvöld sækja einnig um tímabundnar lausnir vegna losunarkostnaðar í millilandaflugi.“

Mér finnst þessi forgangsröðun er alveg skýr. Við viljum ekki beita okkur fyrir því að setja fyrirvara við þennan hluta vegna þess að við erum að beita okkur fyrir því að fá lækkun á álögur á flugfargjöld annars staðar á vettvangi Evrópuþingsins og -ráðsins. Þannig að þetta er alveg hægt. Það er bara ekki vilji fyrir því.

Hvað varðar þetta frumvarp í heild sinni þá finnst mér alveg ágætt og ljómandi fínt að það sé verið að setja einhvern ramma utan um að auðvelda upplýsingar um sjálfbærar fjárfestingar. En það er grænþvottur að halda því fram að kjarnorkuver og gasvinnsla sé sjálfbær iðnaður, sé sjálfbær fjárfesting vegna þess að hún er það ekki. Það er verið að gefa grænan stimpil á iðnað sem er alls ekki grænn, bara langt í frá. Það er bara hreinn og klár grænþvottur að samþykkja þetta í núverandi formi.

Að því sögðu fer ég ekki að greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi vegna þess að það er ýmislegt ágætt í þessu. En með því að samþykkja þetta svona, með því að samþykkja að gas og kjarnorka séu sjálfbær þá erum við beinlínis að vinna gegn markmiðunum. Það er út á það, held ég alveg örugglega, sem þessi dómsmál ganga. Við erum að vinna gegn yfirlýstum markmiðum þessarar reglugerðar: að upplýsa um hvað eru sjálfbærar fjárfestingar, að hjálpa til við sjálfbærar fjárfestingar og uppbyggingu í sjálfbærum geirum. Það er ekkert sjálfbært við það að byggja upp kjarnorkuver eða byggja upp gasvinnslu. Það er bara ekkert sjálfbært við það.