Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

415. mál
[15:52]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hressandi og skemmtilega ræðu. Það er alltaf gaman þegar fólk kemur með afdráttarlausar skoðanir. Stundum er skortur á því. Ég hygg að hv. þingmaður hafi orðað það með þeim hætti að þetta væri algjörlega galið frumvarp. Nú er reyndar svo komið að frumvarpið er í 3. umr. og mjög fáir í salnum til að hlusta á skoðun hv. þingmanns. Hann þarf greinilega að beita öðrum aðferðum til að koma henni á framfæri.

Mér finnst þetta áhugavert því að við erum í grunninn að fjalla um það sem er að mínu viti eitt af stærstu viðfangsefnum stjórnmálanna, loftslagsbreytingar. Ég hygg að hv. þingmaður sé mér ekki sammála. Ég hef ekki skynjað hans orðræðu hér með þeim hætti. En því tengt þá eru auðvitað orkumálin langstærsti hlutinn af loftslagsmálum.

Ég spyr: Hvernig getur það verið stórhættulegt og gríðarlega vitlaus nálgun að skylda aðila á fjármálamarkaði til að birta upplýsingar og flokka fjárfestingar út frá því hvort þær séu grænar og sjálfbærar? Og talandi um það að Sjálfstæðisflokkurinn hafi misst alla trú á markaðshagkerfinu, þá er þetta einmitt leiðin til þess. Verið er að nota markaðshagkerfið til að ná árangri í stærsta viðfangsefni okkar sem eru loftslagsmálin. Hvatt er til grænna og sjálfbærra fjárfestinga. Með þessu eru ákveðnir aðilar skyldaðir til að veita upplýsingar svo að fjárfestar geti haft raunverulegt val um það í hverju þeir fjárfesta og haft góðar og gildar upplýsingar um það hvort viðkomandi fjárfestingar séu þess eðlis að vinna að þessu markmiði okkar, þ.e. að draga úr losun. Eða er kannski hv. þingmaður mér bara algerlega ósammála og telur loftslagsvána og loftslagsbreytingar ekki svo stórt og mikið vandamál?