Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

415. mál
[16:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er snúið út úr orðum mínum. Ég get ekki heyrt annað en að hv. þingmaður og formaður Miðflokksins sé að lýsa yfir dauða og að hér sé allt að fara veg allrar veraldar.

Það er svo sannarlega ekki þannig, hv. þingmaður, vegna þess að atvinnurekendur hafa sýnt ábyrgð og stigið skref í málinu. Allir stofnanafjárfestar og fagfjárfestar sem vilja láta taka sig alvarlega hafa mótað sér samfélags- og sjálfbærnistefnu og fyrirtækin líka. Enginn fjárfestir eða fyrirtæki sem vill láta taka sig alvarlega og ná góðum árangri til lengri tíma getur látið hjá líða að taka tillit til sjálfbærni. Þetta frumvarp er liður í því að auðvelda fjárfestum að fjárfesta enda verður komið á skyldu um upplýsingagjöf og flokkunarkerfi.

Það er verið að stýra fjárfestingum, segir hv. þingmaður Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Já, það má færa rök fyrir því. Ég vil benda á að ég hef verið þeirrar skoðunar mjög lengi — og nú ætla ég að endurtaka það sem ég sagði — að þau fyrirtæki sem láta hjá líða að sýna ábyrgð, horfast ekki í augu við loftslagsvandann af ábyrgð og gera ekki neitt munu verða undir í samkeppninni. Almenningur og fólkið þarna úti vill beina viðskiptum sínum til fyrirtækja sem sýna samfélagslega ábyrgð. Hluti af því er að sýna ábyrgð hvað varðar loftslagsmál.

Sjálfstæðisflokkurinn er löngu búinn að fatta þetta, hv. þingmaður, og þess vegna stöndum við með fyrirtækjum, hvort sem það eru álverin eða iðnaðurinn í landinu. (Forseti hringir.) Fá fyrirtæki hafa stigið jafn stór skref og álverin hvað varðar það að minnka útblástur og að stuðla að því að þeirra rekstur sé í eins góðu horfi og mögulegt er.