Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

tónlistarstefna fyrir árin 2023--2030.

689. mál
[16:28]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Bara örstutt: Ég er á þessu nefndaráliti og styð það heils hugar. Mér finnst mikilvægt að við höldum á lofti hversu mikilvægar aðgerðir þetta eru og það að við séum að stíga þau skref að ýta undir skapandi greinar og horfa til þess að tónlist er jú bæði menning sem skiptir okkur máli í daglegu lífi en ekki síður er hún líka atvinnugrein og mikilvæg útflutningsgrein. Ég vil bara minna á það sem við gerðum hér á síðasta kjörtímabili þegar við breyttum skattalögum með þeim hætti að listamenn greiða í rauninni fjármagnstekjuskatt af sínum stofni sem er listaverkið sjálft þegar það er svo endurnýtt. Því miður eru kannski ekki farnar að koma fram tölur í hverju það hefur skipt máli en ég vænti þess að það skipti miklu máli. Ég held að þessar aðgerðir sem hæstv. ráðherra er hér að ráðast í með þessari aðgerðaáætlun muni líka skipta máli. Ég held líka að það hafi verið mjög stórt skref hjá ríkisstjórninni að setja menningarmálin með viðskiptamálunum þannig að við erum núna í rauninni með ráðuneyti skapandi greina. Ég held að þetta sé framtíðin og sýni svo glöggt hversu ákveðin þessi ríkisstjórn er í að byggja frekar undir skapandi greinar sem mikilvæga stoð í íslensku atvinnulífi.