Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

tónlist.

542. mál
[16:45]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sinfóníuhljómsveit Íslands er á heimsmælikvarða og ég ítreka að það er ánægjulegt ef það á að styrkja hana. Hún hefur vissulega komið út á land en ég held hins vegar að allir verði að gera sér grein fyrir því að það eru takmörk fyrir því hvað hún getur flutt úti á landi. Það eru auðvitað húsakynnin en jafnvel í húsi eins og Hofi á Akureyri er kannski vafasamt að það gerist nema endrum og sinnum og kannski þá með minni hljómsveit, án þess að þekkja það nákvæmlega. Það er því mjög dýrmætt að hafa fyrirbæri eins og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Bara sem dæmi um hvað slík hljómsveit skapar á stærsta þéttbýlisstaðnum fyrir utan höfuðborgarsvæðið þá skapast þarna möguleikar fyrir tónlistarfólk á svæðinu, sem er oft hámenntað, innlent og erlent, til þess að fá meiri lífsfyllingu og það hjálpar til við að manna þá tónlistarskóla sem eru bæði á Akureyri en líka í sveitunum og minni bæjunum í kring. Það hefur auðvitað sýnt sig að öflugur bakstuðningur við tónlist hefur svo sannarlega orðið ígildi stóriðju hér á landi. Ég býst við að flestir sem spila með þessum lykilhljómsveitum okkar í dag, jafnvel þó að það sé popp- eða rokktónlist, eigi bakgrunn og sæki næringu í klassík og hafi menntað sig jafnvel sem slíkir. Þannig að mér finnst það bara býsna sorglegt, verð ég að segja, að ekki hafi verið tekin sjálfstæð umræða um þetta. Og enn og aftur ætla menn að leyfa því að gerast að þróunin verði með þeim hætti að það verði nánast ekkert spurning um hvort heldur hvenær fólk þurfi að flytja af landsbyggðinni og hingað til höfuðborgarinnar.