Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála o.fl.

735. mál
[16:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um stefnu og aðgerðaáætlun á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.

Með frumvarpinu er lagt til að ný lög verði sett um stefnur og aðgerðaáætlanir á málefnasviði nýs innviðaráðuneytis, þ.e. húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna, byggðamála og sveitarstjórnarmála. Meginmarkmið frumvarpsins er að stuðla að aukinni samhæfingu og auknum gæðum einstakra stefna og áætlana á málefnasviði ráðuneytisins og skarpari pólitískari aðkomu að stefnumótun, auk þess að bæta samráð við almenning og hagsmunaaðila.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi.

Meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar leggur til tvær breytingar á frumvarpinu: Í fyrsta lagi er lögð til breyting á markmiðsákvæði frumvarpsins. Í umsögnum kom fram gagnrýni á að markmið einstakra áætlana verði ekki lengur skilgreind í lögum, enda eigi með frumvarpinu að fella úr gildi lög um samgönguáætlun, lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir og ákvæði um stefnumótun á sviði húsnæðismála í lögum um húsnæðismál þar sem markmiðum til að mynda byggðaáætlunar og samgönguáætlunar er lýst sérstaklega. Í staðinn komi almennt orðað markmiðsákvæði, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Í minnisblaði ráðuneytisins sem nefndinni barst vegna málsins benti ráðuneytið sérstaklega á það sem fram kemur í frumvarpinu um mikilvægi þess að stefnurnar séu samhæfðar, styðji hver aðra og byggi á heildstæðri stefnumörkun ráðherra. Meginmarkmiðið með slíkri samhæfingu sé að innviðir mæti þörfum samfélagsins og að til staðar séu sjálfbærar byggðir og sveitarfélög um land allt þar sem búsetufrelsi fólks sé tryggt.

Í ljósi þess að frumvarpið gildir um stefnur og aðgerðaáætlanir á afar víðtækum og fjölbreyttum sviðum telur meiri hlutinn að orðalag markmiðsákvæðis frumvarpsins þurfi að skýra betur þar sem tekið sé frekara mið af þeim atriðum sem ráðuneytið leggur áherslu á að verði eftir sem áður höfð að leiðarljósi við stefnumótun á hverju sviði fyrir sig. Leggur meiri hlutinn því til breytingu á orðalagi 1. gr. frumvarpsins þannig að kveðið verði á um að markmið laganna sé að stuðla að öruggri uppbyggingu innviða og jákvæðri byggðaþróun með því að efla og samhæfa áðurgreindar stefnur þar sem sjálfbær þróun sé höfð að leiðarljósi. Þá þykir meiri hlutanum jafnframt til bóta og aukins skýrleika að bæta við frumvarpið sérstöku ákvæði til áréttingar því að markmiðssetning á sérhverju sviði verði útfærð og skilgreind nánar í hverri stefnu fyrir sig.

Vísast að öðru leyti til ítarlegri umfjöllunar um breytingartillögur í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Að framansögðu virtu leggur meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hér hafa verið reifaðar.

Undir álit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Vilhjálmur Árnason, Ingibjörg Isaksen, Njáll Trausti Friðbertsson og Orri Páll Jóhannsson.

Eins og ég sagði áðan þá erum við að taka út þrenn lög og koma með sérstakt frumvarp til laga um þessar áætlanir. Ég rakti það hér að þær markmiðssetningar sem fylgdu hinum lögunum, þó að þær væru ekki efnismiklar, skiptu máli og gott að hafa að leiðarljósi og þó svo að í hverri stefnu fyrir sig verði sett nánari markaðssetning og skilgreining þá skiptir það máli að hafa þetta til hliðsjónar svo að ekki verði hjá því komist. — Ég hef lokið máli mínu.