Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála o.fl.

735. mál
[16:54]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Hér er um áhugavert mál að ræða. Það sem mér leikur forvitni á að vita er hvernig nefndin brást við athugasemdum Byggðastofnunar. Byggðastofnun gegnir mikilvægu hlutverki í því m.a. að vera málsvari hinna dreifðu byggða. Það kemur fram í athugasemdunum að það skipti verulega miklu máli að stofnunin hafi formlega aðkomu að stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál. Ég vænti þess að hv. þingmaður taki eflaust undir það sjónarmið af því að ég tel að það þurfi miklu frekar að efla varnir landsbyggðarinnar en hitt. Ef maður ber þetta t.d. saman við verndina sem marflóin nýtur í náttúru Íslands frá Náttúrufræðistofnun þá birtast harðorðar greinargerðir og lærðar greinar um að ekki megi raska búsvæði hennar. Í þennan málaflokk vantar miklu frekar að landsbyggðin fái harðari vörn og þess vegna væri fróðlegt að vita hvernig nefndin hefur mætt þessum athugasemdum.