Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála o.fl.

735. mál
[16:57]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir skýr svör. Ef það er óhugsandi, eins og hún nefndi, að búa til byggðaáætlun án aðkomu Byggðastofnunar þá finnst mér einmitt sjálfsagt að taka það fram í textanum þannig að það fari ekkert á milli mála ef ljóst er að það eigi hvort eð er að gera það. Ég tel því rétt að nefndin skoði þennan þátt, sérstaklega í ljósi þess að við erum sammála hvað efni málsins varðar. Auðvitað skiptir verulega miklu máli að fá byggðasjónarmiðin skýrar fram, ekki bara í einhverju plaggi sem fjallar um samþættingu heldur í öllum málum sem koma fram í þinginu. Við erum bara stundum í þinginu að afgreiða mál sem ganga þvert á byggðasjónarmið. Ég vil segja það skýrt og mun eflaust fjalla um það í ræðu á eftir. Þess vegna skiptir miklu máli að efla þessa ágætu stofnun þannig að við sem erum þingmenn og blásum þeim sem þar starfa kjark í brjóst setjum fram greinargóða og skýra afstöðu með byggðunum og til frumvarpa, sem segir tæpitungulaust hvort frumvörpin séu vilhöll byggðunum eða hvort þau geti jafnvel verið þrándur í götu þeirra og varpað tilveru þeirra fyrir róða.