Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála o.fl.

735. mál
[16:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Það segir skýrt, og þess vegna vorum við einmitt að setja inn þessa breytingu, að markmið laganna er að stuðla að öruggri uppbyggingu innviða og jákvæðri byggðaþróun með því að efla og samhæfa áætlanagerðir á þessum sviðum húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna, byggðamála og sveitarstjórnarmála, þar sem sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi. Breytingin endurspeglar t.d. vilja meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar til þess að áætlanirnar tali saman, svo tekið verði tillit til allra byggða á landinu. Ég held að það sé mjög mikilvægt og markmiðið með þessu er náttúrulega að auka samhæfingu og gæði áætlana á málefnasviði ráðuneytisins. Ég held að við getum ekki annað en tekið undir mikilvægi þess sem verður aldrei ofsagt, þótt það komi ekki fram í þessu nefndaráliti — ég er ekki með frumvarpið nákvæmlega fyrir framan mig — að hlutverk þessara stefna er að byggð haldist í öllu landinu, hvort sem er frá nyrstu ströndum eða syðstu. Ég get því ekki annað en tekið undir þetta og mikilvægi þess, en það þarf ekki að margendurtaka það því að markmið frumvarpsins er skýrt.