Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála o.fl.

735. mál
[17:10]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég hyggst segja nokkur orð um nefndarálit 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Framsögumaður álitsins, hv. þm. Andrés Ingi Jónsson, er vant við látinn en ég undirrita þetta álit með honum.

Það þarf kannski ekki að hafa miklar málalengingar um þetta nefndarálit, en við sem undir það ritum erum sammála um að hér sé ráðist í þó nokkuð samsteypuverkefni, ef þannig má að orði komast, án þess að það sé alveg ljóst hver þörfin sé og hvernig það muni virka og koma út þegar það tekur til markmiða í hverri áætlun út af fyrir sig. Þessar breytingar bera þess mjög glöggt merki að verið er að samræma aðgerðir innan hins nýja og stóra innviðaráðuneytis. Það er í sjálfu sér alveg skiljanlegt að verið sé að gera það innan ráðuneytisins en það má hins vegar alveg deila um það hvort það þurfi lagabreytingu sem þessa til að skila árangri í því að samþætta eða samræma áætlanagerð. Það sem getur gerst, eins og bent hefur verið á í umsögnum á fyrri stigum þessa máls, m.a. í umsögnum frá Vegagerðinni og Skipulagsstofnun, er að það liggi ekki að baki þessum breytingum nægilega mikil ígrundun og hætta sé á því að grundvöllur stefnumótunarinnar fari of langt frá löggjafarvaldinu, af því að löggjafarvaldið þarf að setja markmiðin og svo þarf að laga áætlanirnar að þeim.

Þá má líka spyrja, fyrst á annað borð er verið að fara í það verkefni að samræma eða samþætta stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála, hvers vegna ekki sé verið að hugsa stærra og — ég held að það kalli ekki á neinar lagabreytingar — samþætta markmið okkar í loftslagsmálum inn í allar þessar áætlanir, hvort sem þau eru innan innviðaráðuneytisins eða í öðrum ráðuneytum. Ég held reyndar að það sé mjög brýnt mál og þyrfti svo sannarlega að ganga í það verk að brjóta niður múrana sem því miður virðast oft vera býsna háir á milli einstakra ráðuneyta. Ég man ekki betur en að þær breytingar sem núverandi ríkisstjórn gerði á skipan Stjórnarráðsins fyrir u.þ.b. ári síðan með fjölgun ráðuneytanna og breyttri skiptingu verkefna hafi einmitt verið hugsuð til þess að reyna að brjóta þessa múra niður. Það á kannski eftir að koma í ljós hvort það hefur tekist, en hér er verið að samræma og þjappa saman áætlanagerð innan eins mjög stórs ráðuneytis án þess að það komi sérstaklega fram hvaða árangri eigi að ná, hvers vegna eigi að gera þetta og til hvers þurfi að fara í lagabreytingar. Í þessari umfjöllun er bent á að fyrir einhverjum árum síðan, líklega fjórum árum, þurfti auðvitað að samræma tímaspönnina í áætlanagerðinni og færa til samræmis við opinber fjármál og það er allt saman mjög skiljanlegt. Hins vegar vitum við að það getur auðvitað gerst einhvern tíma í framtíðinni, jafnvel í náinni framtíð, að einhverri annarri ríkisstjórn detti í hug að setja málaflokka saman með öðrum hætti innan Stjórnarráðsins en nú er gert og þá er röksemdarfærslan kannski horfin fyrir þessari breytingu.

Að því sögðu, frú forseti, eru þetta kannski svona tæknileg og bírókratísk málefni sem við erum hér að ræða. Áætlanir eru jú áætlanir og þeim má breyta, en við hv. framsögumaður, Andrés Ingi Jónsson, sjáum ekki alveg skýran tilgang með þessum breytingum og höfum þess vegna undirritað nefndarálitið sem ég hef hér greint frá í örstuttu máli.