Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála o.fl.

735. mál
[17:17]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni fyrir andsvarið. Auðvitað er það þannig og ég er þeirrar skoðunar að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda sé kannski mikilvægasta áætlunin sem allt stjórnkerfið ætti að starfa eftir. En við vitum að það hefur nánast enginn árangur náðst á tímabili fyrstu áætlunarinnar og enn er verið að uppfæra aðra áætlunina. Það má alveg ræða það í samhengi við þessar breytingar hvort slík áætlanagerð eigi erindi inn í svona samþættingu ef hún er á annað borð ekki að skila neinum árangri til að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur í loftslagsmálum. Ég get alveg tekið undir það sem hv. þingmaður bendir á að hér hefur mikið verið talað og lítið gert í þessum gríðarlega mikilvæga málaflokki. Ef ég réði þessu myndi ég náttúrlega setja loftslagsaðgerðirnar efstar í píramída Stjórnarráðsins og láta allar aðrar áætlanir vinna í samræmi við þær og samdráttinn í losun gróðurhúsalofttegunda. Ég er því miður ekki enn sem komið er í stöðu til þess en upp á framtíðina er það hins vegar eitthvað sem mætti hugsa.