Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála o.fl.

735. mál
[17:19]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Það er í sjálfu sér ágætt að heyra að ég sé ekki einn um þá skoðun að þetta sé bara tal og mal og lítið um raunverulegar aðgerðir. Þegar maður spyr um raunverulegar aðgerðir verða svörin vandræðaleg og óskýrari eftir því sem maður spyr beinna um þetta. Ég deili ekki þeirri skoðun að við, þetta litla land í Atlantshafinu, munum hafa úrslitaáhrif hvað varðar loftslagið og eigum þess vegna að snúa öllu stjórnkerfinu í átt að því að ná þessum markmiðum. Ég held einfaldlega að þetta taki lengri tíma og mér finnst þessar áætlanir sem eru í gangi gera eiginlega meira ógagn en gagn. Ef menn hafa ekki fyrir framan sig einhver markmið sem eru raunveruleg og menn ætla að ná — það er bara ekki góð leið að setja sér svo háleit markmið ef það er alveg fyrirséð að ekki sé nokkur leið að ná þeim. Ég held að það væri miklu nær að setja sér einhver lágstemmdari markmið og ná þeim, það er auðvitað miklu skynsamlegra.

Svo er það hitt, að ef menn ætluðu að setja sér þessi markmið og ná þeim, myndu keyra þetta allt í gegn eins og mér heyrist sumir vilja, þá eru menn kannski að fara með landið aftur til baka um 50 ár og framleiðsluferlar yrðu þá teknir upp eins og þeir voru árið 1960 eða hvað það nú er. Ég tel að nútíminn sé ekki tilbúinn í þetta og enginn er að vinna að því í Stjórnarráðinu að ná þessum markmiðum sem eru sett.