Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Landeyjahöfn.

398. mál
[17:46]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu í þessu máli og ég get tekið undir hana að mörgu leyti. En það er rétt að nefna það í þessari umræðu um Landeyjahöfn að það voru aðilar, reyndir sjómenn, sem vöruðu við þessum framkvæmdum, höfðu verið þarna á veiðum og vöruðu við þessu og sögðu að þetta myndi ekki ganga. En einhverra hluta vegna var hlaupið í þessa framkvæmd og hún er núna að skila þjóðinni miklum kostnaði. Ég tek undir að það þurfi að staldra við í þessari umræðu en fyrst og fremst þarf að horfa svolítið fram á veginn. Hvaða leiðir sjáum við? Það verður að líta til þess að að það þarf að efla samgöngur til Vestmannaeyja. Við getum ekki horft á það þannig að samgöngur til Vestmannaeyja sé einangraðar við Vestmannaeyinga, þetta er þjóðhagslega hagkvæmt og þetta er mikil ferðamannaparadís. Við getum ekki, tel ég, látið þessa hluti afskiptalausa heldur er alveg nauðsynlegt að fara þá leið að sýna ákveðni í málinu, taka þetta föstum tökum og að skilaboðin komi beint og hreint héðan og með ákveðinni festu um að það verði bætt úr þessu og það verði gert með traustum hætti. Þó svo að þessi framkvæmd hafi að einhverju leyti farið í sandinn þá þarf annaðhvort að skoða nýjar leiðir eða að breyta þessu mannvirki. Í allri þessari umræðu um Landeyjahöfn þá tel ég að við þurfum að senda skýr og jákvæð skilaboð um að menn muni einhenda sér í að tryggja samgöngur með betri hætti til Eyja.