Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Landeyjahöfn.

398. mál
[17:48]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni fyrir andsvarið. Ég er bara sammála honum og ég er minnugur þess, eins og hann nefndi hér, að þessi framkvæmd var umdeild á sínum tíma og ýmsir aðilar vöruðu við henni. En það er ekki hægt að ganga fram hjá því að þessi höfn er til mikilla hagsbóta þegar hún er í lagi. Það skiptir máli að geta farið þarna yfir, stutt að fara, í staðinn fyrir að kúldrast í bátnum í þrjá tíma eða lengur á milli Eyja og Þorlákshafnar. Þegar höfnin er í lagi er hún mikil búbót og skiptir máli. Úr því sem komið er held ég að það þurfi að leita einhverra leiða og einhverrar tækni sem gæti dugað til að halda höfninni þannig að hún safni ekki svona miklum sandi í sig og það er örugglega til fólk sem er hæft til að finna út úr því, kannski með byggingu varnargarða eða einhverju slíku. Það er vissulega rétt að það eru ekki bara Eyjamenn sem eru að fara til lands. Við erum líka að fara til Eyja, enda er mikil náttúrufegurð í Vestmannaeyjum og þetta er ferðamannaparadís sem flestir ættu að heimsækja. Vonandi getum við dregið af þessu lærdóm. Skýrsla Ríkisendurskoðunar bendir ekkert á einhverjar leiðir til að laga höfnina en hún gerir okkur vissulega grein fyrir þeim mistökum sem áttu sér stað í áætlanagerð, kannski vegna þess að þarna voru ófyrirséðir hlutir, hlutir sem við sáum ekki fyrir en einhverjir höfðu samt varað við.