Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Landeyjahöfn.

398. mál
[17:52]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Þessi skýrsla er í raun og veru ekki bara um Landeyjahöfn sem slíka. Hún er að brýna okkur til þess hvað varðar áætlanagerð almennt að taka til gagngerrar skoðunar og/eða endurskoðunar með hvaða hætti áætlanir eru búnar til og lagðar fram. Oft og einatt erum við á öllum sviðum að fara fram úr þeim áætlunum sem búið er að gera. Hv. þingmaður nefnir hér sérstaklega svið samgöngumála þar sem ekki eru fullreiknaðir allir þeir þættir sem snúa að vegagerð eða brúarsmíði eða hvað eina sem snýr að samgöngumálum. En svo má líka nefna að við búum í samfélagi og óstöðugu efnahagsumhverfi, við lifum í þannig umhverfi að við vitum ekki þegar við förum að sofa um kvöldið hvað við eigum að borga í afborgun á morgun. Þannig hefur þetta verið endalaust. Við erum alltaf að glíma við þennan óstöðugleika og það á alveg eins við um ríkið eins og bara okkur sjálf sem erum kannski að fjárfesta eða gera áætlanir um hvernig við ætlum að reka heimili okkar næsta árið. Það er kannski búið að kippa undan okkur fótfestunni áður en varir og við ráðum ekki neitt við neitt. Það er kannski stórt og mikið mál sem við þurfum að huga að, hvernig við getum undirbyggt einhvern þann stöðugleika í efnahagsumhverfinu okkar sem gerir það að verkum að hægt er að gera áætlanir sem við getum staðið við, ekki bara ríkið heldur sveitarfélög og almenningur í landinu.