153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2022.

984. mál
[17:55]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir skýrslu samstarfsráðherra Norðurlanda um störf Norrænu ráðherranefndarinnar árið 2022. Skýrslan nær yfir það samstarf ráðherra og ráðuneyta sem tengjast ráðherranefndinni og er formlega bundið í norrænum samningum. Þá er þar gerð grein fyrir norrænu samstarfi forsætisráðherranna og starfsemi á vettvangi samstarfsráðherra Norðurlanda.

Skýrsla samstarfsráðherra er unnin í samvinnu allra þeirra fagráðuneyta sem taka þátt í norrænu samstarfi á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar. Í skýrslunni er leitast við að draga saman það helsta sem unnið var að á síðastliðnu ári. Eins og þau sem koma að norrænu samstarfi þekkja vel, þá er samstarfið á vettvangi ráðherranefndarinnar afskaplega víðtækt og því engin leið að gera því tæmandi skil í svo stuttri skýrslu. Fyrir þau sem vilja kafa dýpra í málin bendi ég á vefsíðu Norrænu ráðherranefndarinnar þar sem er að finna mikinn fróðleik og upplýsingar auk þess sem þar má nálgast skýrslur um norræn samstarfsverkefni.

Ég vil draga fram nokkur atriði sem ég tel að hafi borið hæst á síðasta ári, bæði að því er varðar okkur Íslendinga sérstaklega og einnig að því er varðar störf ráðherranefndarinnar almennt.

Frá því að forsætisráðherrar Norðurlanda mótuðu framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf í formennskutíð Íslands árið 2019 hefur samstarfið á öllum sviðum miðað að því að Norðurlönd verði sjálfbærasta og best samþætta svæði heims árið 2030. Stefnan er tekin á græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Útfærslu þessara umfangsmiklu stefnumála er að finna í stefnuskjali fyrir starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar sem nær frá árinu 2021 til ársins 2024.

Á árinu 2022 fór Noregur með formennsku í ráðherranefndinni undir yfirskriftinni: Norðurlönd – sterkari og grænni í sameiningu. Fyrri hluta ársins gætti enn talsverðra áhrifa heimsfaraldurs í daglegu lífi Norðurlandabúa og í norrænu samstarfi. Unnið var að þeim tillögum sem Jan-Erik Enestam, fyrrverandi ráðherra í Finnlandi, hafði kynnt í stefnumótandi úttekt á því hvernig mætti draga lærdóm af faraldrinum til þess að efla samstarf á krísutímum. Úttektina vann Enestam að beiðni samstarfsráðherranna og kynnti hann niðurstöður sínar fyrir þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í nóvember 2021. Starfshópur á vegum norrænu samstarfsnefndarinnar vann síðan úr tillögunum og skilaði í október á síðasta ári greinargerð, ásamt heildaryfirliti yfir það norræna samstarf á hættu- og neyðartímum sem þegar er fyrir hendi. Var greinargerðin kynnt á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki haustið 2022. Meðal þeirra atriða sem starfshópurinn benti á að huga þyrfti betur að, var aukinn hreyfanleiki, opinn vinnumarkaður og frjáls för á Norðurlöndum, einnig sérstakar áskoranir landamærasvæða, málefni sem tengjast sýkingavörnum og ógnum við heilsu.

Hér heima einkenndist árið 2022 að sjálfsögðu af undirbúningi fyrir formennsku okkar í Norrænu ráðherranefndinni á þessu ári, 2023. Svíþjóð fór þess á leit við Ísland að eiga skipti um formennskusætið í ráðherranefndinni, en Svíar tóku við formennsku í ESB 1. janúar sl. og sáu fyrir sér að stjórnun tveggja viðamikilla verkefna á alþjóðavettvangi á sama tíma mætti auðvelda með því að skipta við Ísland. Orðið var við þessari beiðni, enda nokkur fordæmi að finna fyrir slíkum sætaskiptum í norræna samstarfinu. Svíþjóð tekur því við formennsku í ráðherranefndinni árið 2024 og síðan kemur röðin aftur að Íslandi árið 2029.

Virðulegi forseti. Í góðu og þéttu samstarfi við fulltrúa Íslands í norrænum embættismannanefndum var gengið frá formennskuáætlun sem ber yfirskriftina: Norðurlönd – afl til friðar. Í þessu ferli áttum við mjög gott samráð við Íslandsdeild Norðurlandaráðs og vil ég nota tækifærið og þakka Íslandsdeildinni fyrir innlegg þeirra í formennskuáætlunina. Áætlunin var einnig kynnt sérstaklega fyrir utanríkismálanefnd Alþingis í lok ársins. Hún er aðgengileg rafrænt á heimasíðu ráðherranefndarinnar á fjórum tungumálum; íslensku, dönsku, finnsku og ensku. Hvet ég hv. þingmenn til þess að kynna sér hana, en áætlunin var formlega lögð fram á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki síðastliðið haust þar sem forsætisráðherra kynnti áætlunina. Ég mun ekki fara nánar ofan í einstök efnisatriði formennskuáætlunarinnar enda er formennskuárið enn þá tiltölulega ungt og margt sem kemur til framkvæmda síðar á þessu ári. Auk þess er það viðfangsefni næstu skýrslu samstarfsráðherra. Ég vil þó segja að Ísland mun að sjálfsögðu vinna ötullega að áherslusviðunum þremur í framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd auk áherslunnar á frið.

Á fagsviðum norræns samstarfs var starfsemin lífleg á síðastliðnu ári og tók Ísland virkan þátt í þeim fjölmörgu verkefnum sem unnið var að. Nokkur stutt dæmi sýna alla þá vídd og fjölbreytileika sem er í norrænu samstarfi. Á vettvangi norrænu matvælaráðherranna var ný útgáfa á norrænum næringarráðleggingum mikið til umfjöllunar á árinu, en þær njóta viðurkenningar í alþjóðlegu samhengi og eru fyrirmynd víða um heim fyrir næringarráðleggingar annarra ríkja. Að baki þeim liggur umfangsmikið vísindastarf, en þær verða formlega gefnar út í júní næstkomandi. Er þeirra beðið með nokkurri eftirvæntingu.

Norrænir byggðamálaráðherrar fjölluðu um greiningu sem þeir létu gera á margvíslegum áhrifum fjarvinnu. Aðdragandi greiningarinnar var að heimsfaraldurinn hafði áhrif á hreyfigetu íbúa milli landsbyggðar og þéttbýlis og áhugi fólks jókst á fjarvinnu og búsetu í dreifbýli. Norræna greiningin á fjarvinnu varpar ljósi á áhrifin, sem hafa í för með sér bæði áskoranir en einnig tækifæri fyrir svæði og sveitarfélög á Norðurlöndum.

Mig langar einnig að nefna að Norræna rannsóknastofnunin um byggðaþróun og skipulagsmál, Nordregio, vinnur nú að rannsókn í samvinnu við Háskólann á Akureyri sem snýr að áhrifum rafknúinna flugvéla á landshluta og byggðarlög.

Norræna ráðherranefndin um stafræna þjónustu og stafvæðingu, sem er jafnframt sú eina með aðild Eystrasaltsríkjanna, einbeitti sér m.a. á árinu að verkefni sem lýtur að stafrænu aðgengi fyrir öll. Þetta málefni hefur mikið verið í umræðunni á Norðurlöndum og víða um heim. Með jafnri og mikilli notkun almennings á stafrænni þjónustu kemur betur og betur í ljós að þau sem af margvíslegum ástæðum standa höllum fæti gagnvart tækni eiga erfiðara með að nýta sér þá stafrænu þjónustu sem er í boði.

Á vettvangi umhverfis- og loftslagsráðherranna var unnið að fjölmörgum verkefnum sem varða loftslagsmál og kolefnishlutlaus Norðurlönd, m.a. til að styðja við alþjóðastarf og eftirfylgni Parísarsamningsins. Má þar nefna verkefni er varða fjármögnun loftslagsaðgerða á alþjóðavísu, jafnrétti og loftslag og hvernig Norðurlönd geta breytt regluverki til að ýta undir föngun og geymslu koldíoxíðs. Einnig voru áberandi verkefni sem stuðla að hröðun rafvæðingar vegasamgangna á Norðurlöndum, sjálfbærum vöruflutningum og grænum siglingaleiðum.

Unnið var að endurskoðun norrænu tungumálayfirlýsingarinnar á vegum ráðherranefndar um menntamál og rannsóknir. Áhersla er lögð á það í formennskuáætlun okkar að ljúka þeirri vinnu á formennskuárinu, en hún hófst að frumkvæði Íslands á árinu 2019 þegar við fórum síðast með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni.

Virðulegi forseti. Málefni Norræna hússins í Reykjavík voru mikið í deiglunni á síðasta ári á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar en nefndin óskaði eftir því við íslensk stjórnvöld að framtíðarfyrirkomulag eignarhalds hússins yrði skoðað. Viðræður hafa staðið um framtíðarfyrirkomulag eignarhalds hússins og þá með það fyrir augum að Ísland komi í auknum mæli að rekstri þess og/eða taki yfir eignarhald á því. Auk Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn koma forsætisráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, menningar- og viðskiptaráðuneytið og utanríkisráðuneytið, fyrir hönd samstarfsráðherra, að vinnslu þessa máls, sem enn er í skoðun og vinnslu þegar þetta er mælt.

Virðulegi forseti. Hér hef ég stiklað á stóru og nefnt nokkur dæmi um það sem var efst á baugi á síðasta ári í norrænu samstarfi. Dæmin hef ég tekið af handahófi og örugglega er ég að horfa fram hjá einhverjum atriðum í samstarfinu sem skipta miklu máli fyrir Ísland. En greinargerðir um samstarfið eftir málefnasviðum er að finna í þeirri skýrslu sem hér liggur frammi og því einfalt að kynna sér efnið eftir áhuga hvers og eins.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég nefna að á síðasta ári fór mikill tími í viðræður við Norðurlandaráð um fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið í ár. Noregur sem formennskuríki leiddi þær viðræður fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar. Norðurlandaráð kemur sjónarmiðum sínum á framfæri við ráðherranefndina hvað varðar skiptingu fjármuna á einstök verkefni, og svo var einnig að þessu sinni. Sem verðandi formaður í norræna samstarfsráðherrahópnum kom ég fyrir hönd Íslands að viðræðum í lok ársins milli fráfarandi og verðandi formennskuríkja til að leggja grunn að sambærilegu ferli fyrir fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2024. Ráðið hefur óskað eftir því að samráðið hefjist fyrr á árinu en verið hefur og að svo miklu leyti sem það er unnt hefur ráðherranefndarskrifstofan komið til móts við þær óskir.

Ánægjulegt er að geta sagt frá því að viðræðurnar milli forseta Norðurlandaráðs og Íslands sem formennskuríkis ráðherranefndarinnar vegna fjárhagsáætlunar ársins 2024 hófust óvenjulega snemma á árinu í ár og voru til lykta leiddar í byrjun mars á þessu ári. Norðurlandaráð samþykkti samkomulagið formlega á þemaþingi sínu síðar þann sama mánuð, og samstarfsráðherrar Norðurlanda á fjarfundi sínum í síðustu viku. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að samkomulag af þessu tagi hafi aldrei áður legið fyrir svo snemma á árinu. Í þessu ferli átti ég mjög gott samstarf við þá Jorodd Asphjell, forseta Norðurlandaráðs, og Helge Orten, varaforseta ráðsins. Einnig var gott samstarf milli skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn sem leiddi til þess að við náðum að lenda málinu í góðri sátt.

Virðulegi forseti. Norrænt samstarf er okkur Íslendingum dýrmætt og afar mikilvægt. Á þessu ári erum við í formennskuhlutverkinu. Því fylgir mikil ábyrgð sem dreifist bæði á fagráðherra og fulltrúa okkar í norrænu embættismannanefndunum. Ekki má heldur gleyma þeim sem sitja í stjórnum norrænna stofnana fyrir Íslands hönd eða í ýmsum öðrum nefndum og ráðum á norrænum vettvangi og gegna þar formennsku á þessu ári. Eins og ég nefndi í upphafi máls míns er margt á döfinni á formennskuárinu sem spennandi verður að fylgjast með en of snemmt að segja frá á þessari stundu.

Ég vil líka nota tækifærið, hæstv. forseti, og þakka Íslandsdeild Norðurlandaráðs kærlega fyrir það samstarf sem við höfum átt og ég vonast áfram eftir góðu samstarfi við þá góðu nefnd. Mun ég vonandi geta síðan greint ykkur að ári liðnu frá því hvernig til tókst með formennskuárið sem nú er í gangi.