Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2022.

984. mál
[18:16]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra skýrsluna og framsöguna og vil þakka honum fyrir samstarfið við Íslandsdeild Norðurlandaráðs sem hefur verið mjög gott og mikið. Og einmitt af því að hér voru nefnd aðeins þessi fjármál sem hafa verið til mikillar umræðu að undanförnu, þá ríkir, eftir því sem ég best heyri, mikil sátt innan forsætisnefndar um þau vinnubrögð sem hæstv. ráðherra hefur viðhaft í samstarfi við Norðurlandaráð. En mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra út í sýn hans á framtíð norræns samstarfs. Ég hygg að við sem hér erum inni, og vonandi fleiri, séum mjög sammála um mikilvægi norræns samstarfs. Það er svolítið síðan Helsinki-sáttmálinn var endurskoðaður og forsætisnefnd Norðurlandaráðs hefur ýtt úr vör einhvers konar samstarfshóp um að vinna að endurskoðun sáttmálans þar sem er tekið á þeim málefnasviðum sem við vinnum saman á. Þar er ekki komið neitt sérstaklega inn á öryggis- og varnarmál. Eins og hæstv. ráðherra nefndi erum við núna í okkar formennskutíð að leggja áherslu á frið og gildi friðar og hvernig friður er undirstaða þess samfélags sem við búum í og viljum búa í. Mig langar að fá kannski sýn ráðherra á framtíð þessa norræna samstarfs og hvort hann telji ekki þörf á því að við setjum inn öryggis- og varnarmál. Nú vil ég ítreka það að ég er að tala um þessa þætti í mjög víðu samhengi. Eins og hann kom inn á og er ágætlega fjallað um í skýrslunni þá var fjallað sérstaklega um Enestam-skýrsluna þar sem er svolítið (Forseti hringir.) farið yfir þessa krísuviðburði og öryggi þannig að öryggismál geta auðvitað verið alls konar.