Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 102. fundur,  3. maí 2023.

Kjaragliðnun.

[16:15]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Á Íslandi ætti að vera gott að lifa, eldast og eiga ánægjulegt ævikvöld. En þannig er ekki staða allra hér á landi. Fátækt spyr ekki um kyn en samt sem áður er erfitt að horfa fram hjá því að kynbundinn launamunur hefur ekki aðeins áhrif á laun kvenna þegar þær eru ungar. Launamunurinn hefur áhrif á öll réttindi sem þær ávinna sér á vinnumarkaði. Konur fá lægri orlofsgreiðslur en karlar og lægri eftirlaun. Þannig eru konur líklegri til að búa við fátækt á efri árum. Margar konur vinna í láglaunastörfum og aðrar hafa unnið hlutastörf vegna þess að þær eru að sinna börnum og heimili, öldruðum, foreldrum eða öðrum ættingjum. Þar að auki reka konur höfuðið í glerþakið og fá ekki alltaf sömu tækifæri og framgang á vinnustöðum og karlmenn. Það hefur líka áhrif á launin og á eftirlaunin.

Ef skipting þjóðarkökunnar væri réttlátari gætum við auðveldlega bætt kjör eldra fólks. Við höfum efni á því. Við höfum efni á því að hækka greiðslur almannatrygginga. Það er ekki mikil reisn yfir þjóð sem tryggir ekki eldra fólki mannsæmandi kjör. Það þarf að hækka eftirlaunin, setja á sveigjanleg starfslok og gera fólki kleift að skilja og verja rétt sinn. Kjaragliðnunin á milli launamanna á lægstu launum og þeirra sem þurfa að treysta á greiðslur almannatrygginga vex ár frá ári og nemur nú rétt tæpum 100.000 kr. á mánuði. Þetta verður að leiðrétta. Og þegar búið er að því þarf að finna leiðir til að kjaragliðnunin hefjist ekki á ný. Upplögð leið til þess væri að miða við útreikning árlegrar hækkunar launa alþingismanna þegar hækkun lífeyris er ákveðin. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)