Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 102. fundur,  3. maí 2023.

húsaleigulög.

898. mál
[17:16]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Það er neyðarástand á leigumarkaði. Ríkisstjórnin hefur gert sitt besta til að loka augunum fyrir því auk þess að beita hreinum og klárum blekkingum til að fela ástandið en inn á samfélagsmiðla flæða frásagnir. Þar er hægt að sjá sannleikann, þann harða raunveruleika sem blasir við gríðarlega mörgum. Bara í dag kom eftirfarandi neyðarkall inn á umræðuhóp leigjenda:

Ég veit að það eru fleiri svona statusar búnir að koma og ég er í sömu stöðu og svo margir. Ég lendi á götunni 1. júlí með tvö börn. Ég er að leigja hjá Ölmu leigufélagi sem er að hækka hjá mér leiguna sem verður eftir hækkun alveg vitavonlaust að ég standi undir ein með tvö börn.

Fyrir nokkrum dögum birtist á sama vettvangi eftir eftirfarandi frásögn sem ég hef leyft mér að umorða:

Hvaða sturlun er eiginlega í gangi á leigumarkaðnum? Er að auglýsa stúdíóíbúð og þótt ég sé ekkert smábarn er ég grenjandi hérna. Ég fékk yfir 200 skilaboð fyrstu tvær klukkustundirnar og neyðin sem hefur komið fram hjá svo mörgum er að brjóta mig. Af hverju er ekkert verið að gera til að minnka neyðina? Þetta er sjúklegasta ástand sem ég hef upplifað. Fólk hefur reynt að hóta mér, það hefur grátið, reynt að vekja athygli mína á sér á öllum hugsanlegum vígstöðvum, auk þess sem margir eru búnir að yfirbjóða verulega til að freista þess að negla húsnæðið. Fólk er að reyna að fá stúdíóíbúð, sem er fyrir einn aðila, fyrir heilu fjölskyldurnar með lítil börn og fullt af fólki sem býr í bíl með smábörn hefur haft samband. Ég er bara bugaður eftir þetta.

Í gærmorgun, daginn eftir baráttudag verkalýðsins, lét Alma leigufélag sýslumanninn í Reykjavík ásamt lögreglu bera út áttræðan mann og son hans sem er bundinn við hjólastól. Alma er leigufélag sem hagnaðist um 12 milljarða á síðasta ári en tveggja mánaða skuld, sem Umboðsmaður skuldara hafði samt samið um, var þessu hrægammafélagi greinilega ofviða og það fann sig knúið til þessara aðgerða. Mikil er skömm þess. Alma, með nafn sem þýðir víst mild og nærandi, svo kaldhæðnislegt sem það er, er sjálfsagt orðin ónæm fyrir skömminni og ekkert fer fyrir mildinni sem felst í nafninu. Þegar sýslumaður var spurður að því hvert þeir feðgar, annar áttræður og hinn bundinn við hjólastól, ættu að fara benti sýslumaðurinn á gistiskýli Reykjavíkurborgar.

Ofangreindar frásagnir eru allar frá því í dag og í gær. Þær eru enn fleiri ef lengra aftur væri leitað.

Hér er líka full ástæða til að nefna stórgóða skýrslu sem Samtök leigjenda létu gera og birtu fyrir nokkrum dögum. Í henni kemur t.d. fram — og nú kemur nokkur upptalning — að frá 2011 hefur verðlag hækkað um 60% en húsaleiga um 134%. Húsaleigan hækkaði þannig 127% meira en verðlagið. Húsaleiga hefur hækkað um 61% meira en byggingarvísitalan frá 2011. Það er 36% raunhækkun á húsaleigu umfram byggingarvísitölu. Meðalhækkun í Evrópu frá 2011–2022 er 17%. 134% hækkun húsaleigu, látum það síast aðeins inn.

Samfylgni húsnæðisverðverðs og húsaleigu á Íslandi 2011–2022 var 61% en á meginlandinu var hún rúm 35%. Samfylgnin á Íslandi var 74% meiri. En það versnar samt enn: Samfylgni húsnæðisverðs og húsaleigu á Íslandi 2018–2020 var 193% en á meginlandinu var hún 25%. Samfylgnin á Íslandi var 650% meiri. Hlutfall húsaleigu af lágmarkslaunum er 69% sé miðað við 80–100 m² íbúð á höfuðborgarsvæðinu. Þetta hlutfall er 19% hærra en það var árið 2011. Ef húsaleiga hefði fylgt verðlagsþróun frá 2011 var hún 30% lægri en hún er. Húsaleiga á 80–100 m² íbúð á höfuðborgarsvæðinu væri þá 176.000 í stað þess að vera 250.000. Það munar um minna. Fátækt vegna húsnæðiskostnaðar er sex sinnum meiri hjá leigjendum en eigendum. 26% leigjenda söfnuðu skuldum árið 2022.

Já, land tækifæranna er byggt á fátæktarstefnu gagnvart leigjendum. Það er byggt á frelsi til að knýja fjölskyldur á leigumarkaði í fátækt og varna þeim undankomu af honum. Viðmiðunarverð fyrir húsaleigu er það eina sem rétt getur af ranglætið á leigumarkaði því að frelsi einstaklinga hlýtur að takmarkast við athafnir sem skaða aðra. Leigumarkaðurinn er eins og villta vestrið, ekki þannig að leigjendur og leigufélög séu kúrekar sem berjast hverjir við aðra. Nei, leigufélögin eru kúrekarnir, fullvopnaðir, leigjendur eru eins og varnarlausir nautgripirnir sem þeir reka á undan sér og slátra að vild. Þetta getur ekki gengið svona lengur.

Hér hef ég farið yfir nokkrar sláandi staðreyndir um leigumarkaðinn og þær einar og sér ættu að vera nóg til þess að gripið sé til aðgerða og þetta frumvarp um leigubremsu samþykkt. En neyð fólks hefur hingað til ekki dugað til þess að þessi ríkisstjórn grípi til aðgerða þannig að næst ætla ég að ræða áhrif leigumarkaðarins á verðbólguna sem ríkisstjórnin segist vilja berjast við. Hátt leiguverð fer beint inn í vísitöluna og viðheldur þannig verðbólgunni. Ekki er nóg með það heldur viðheldur það einnig háu húsnæðisverði þar sem fjárfestar sjá margir leigutekjur í hillingum. Þeir hafa efni á að kaupa íbúðir án þess að þurfa endilega að treysta á fjármögnun banka eða 35% þjóðhagsvarúðartakmarkanir Seðlabankans. Það er ekkert að stöðva þá. Auk þess, eins furðulegt og það er, getur fólk sótt um lán fyrir íbúð sem það ætlar að leigja út og fengið lán samþykkt í banka út frá áætluðum leigutekjum. Það er eitthvað sem aldrei ætti að líðast enda geta leigjendur ekki bent á að þeir ráði við greiðslu lána með því að vísa í skilvísar leigugreiðslur til margra ára. Þetta misræmi er svo sem ekki það sem er til umræðu hér þó að ég leyfi mér að vekja athygli á því. Punkturinn er sá að hátt leiguverð viðheldur hárri verðbólgu og það er hagur okkar allra að koma böndum á það.

Samkvæmt þeim tölum sem ég las upp áðan eru leigufélögin ekki á flæðiskeri stödd. Það er líka hreint ekkert sjálfsagt að leigjendur greiði fyrir hækkun á húsnæðisverði með hækkaðri húsaleigu því að leigusalarnir njóta góðs af hækkuninni en leigjendurnir ekki. Á undanförnum mánuðum hefur bæði fjármálaráðherra og seðlabankastjóra verið tíðrætt um hversu góð eiginfjárstaða heimilanna sé vegna hækkaðs fasteignamats. Þetta hafa þeir félagar ítrekað notað sem rök fyrir því að heimili með lán geti alveg staðið undir gríðarlegri hækkun húsnæðiskostnaðar því að þau séu hvort eð er að hagnast svo mikið. Samkvæmt sömu rökum ætti leiguverð að lækka með hækkandi fasteignamati því að það eru jú leigusalar sem munu stinga hagnaðinum í sinn vasa þegar þeim þóknast að selja.

Burt séð frá þessu hefur Flokkur fólksins margoft reynt að stemma stigu við því skelfilega ástandi sem blasir við á húsnæðismarkaði, ekki hvað síst á leigumarkaði. Þannig hef ég sjálf í þrígang lagt fram frumvarp um að verðtrygging á leigu og á lánum verði fryst í eitt ár. Ef það hefði gengið í gegn í fyrsta skipti hefði sú frysting átti að gilda allt síðastliðið ár sem hefði breytt gríðarlega miklu fyrir fjölmarga. Þegar ég lagði það fram í annað skipti hefði það átt að gilda frá miðju síðasta ári og fram á mitt þetta ár sem einnig hefði breytt ótrúlega miklu. Í síðasta skiptið var það til að freista þess að ná því í gegn fyrir árið í ár. Að mínu mati var það frumvarp ekki lausn heldur neyðarráðstöfun og það minnsta sem ríkisstjórnin gat gert. En hún var ekki til í það. Síðastliðið haust fór ég svo fram á að neyðarlög væru sett á húsnæðismarkað en ég held að ríkisstjórnin hafi talið þá tillögu jaðra við einhvers konar móðursýki því að ástandið væri hreint ekki svo slæmt. Staðreyndin er hins vegar sú að við erum núna farin að horfa upp á fólk á götunni. Þar eru leigjendur að lenda núna. Um það vitna dæmin sem ég las hér í upphafi sem og fleiri neyðarköll hundraða sem eru að missa leigusamninga sína, oft vegna þess að þau standa ekki undir hækkunum. Áður en of langt um líður kemur að þeim sem ekki ráða við að greiða af lánunum sínum og innan fárra ára þeim sem nú er verið að festa í gildru verðtryggðra lána. Staðan á bara eftir að versna.

Leigubremsan sem hér er mælt fyrir er það minnsta sem hægt er að gera. Ég vona innilega að hún fái góða meðferð í nefnd og verði samþykkt hér á Alþingi, einfaldlega af því að það er rétt. Það er ekki hægt að leyfa leigufélögum að ganga lengra gagnvart fólki. Nú þurfum við, fólkið í landinu, að rísa upp og segja: Hingað og ekki lengra.