Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 102. fundur,  3. maí 2023.

húsaleigulög.

898. mál
[17:38]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða um efni frumvarpsins, það hefur hv. þm. Inga Sæland gert rækilega. En ég mun fjalla um aðra þætti sem snerta kannski þennan pólitíska vinkil á þessu máli og það er hvers vegna í ósköpunum enginn nema Flokkur fólksins bregst við neyðarkalli leigjenda. Það hefur bara verið æpandi neyðarkall á stjórnvöld að koma til móts við leigjendur í þessu máli og koma með einhverjar aðgerðir í þá veru sem við erum að kynna hér.

Þetta er bara dæmi um algera firringu. Það er firring að málið skuli ekki vera á dagskrá ríkisstjórnar Íslands. Hvers vegna er það ekki? Ég held að það sé rétt að þjóðin spyrji þeirrar spurningar hvers vegna í ósköpunum þetta mál sé ekki ofarlega á dagskrá ríkisstjórnar Íslands. Staðreyndin er sú að 90% þeirra sem eru á þessum markaði — við tölum um þetta eins og einhverja markaðsvöru en það má ekki gleyma því að við erum að tala um heimili og athvarf fólks, fjölskyldna, barnafjölskyldna, og að tala um þetta eins og hvern annan markað með olíu eða stál eða eitthvað svoleiðis, þetta eru bara aðrir hlutir. Þess vegna þarf að horfa á þessa hluti með öðrum hætti og taka utan um þá í því augnamiði að við séum ekki hér í maí árið 2023 að bera út gamalt og fatlað fólk vegna þess að leigufélag sem hefur 12 milljarða kr. í gróða vill fá enn meira. Það þarf að setja einhverjar skorður við þessari gróðafíkn.

Ég sakna þess að sjá ekki þingmenn frá stjórnarflokkunum hérna að ræða þessa hluti, hvort sem það er í þessari umræðu eða 2. umr. Nei, þessi mál fást ekki rædd. Það er eins og það sé eitthvert tabú á því hjá þingmönnum stjórnarmeirihlutans að ræða hér um leigjendur. Er þetta eitthvert óhreint fólk? Er þetta óhreina fólkið, hæstv. forsætisráðherra, sem má ekki tala um? Eiga þessi svokölluðu leigufélög að hafa bara veiðileyfi á þetta fólk? Við í Flokki fólksins segjum bara nei við því. Þess vegna setjum við þetta frumvarp fram og það er mjög málefnalegt. Ég vil bara ítreka það sem kom fram hér í umræðunni, að ASÍ hefur tekið efnislega undir þau sjónarmið sem hafa komið fram og Samtök leigjenda á Íslandi hafa kallað eftir þessum aðgerðum.

Ég spurði hér um forystumenn ríkisstjórnarinnar og það er rétt að minna á það hér að flokkurinn á miðjunni, hann er með þennan málaflokk. Hann vildi fá bæði skipulagsmálin og húsnæðismálin til að gera einhverjar samtvinnaðar áætlanir. Og hverju hafa þær skilað? Þær hafa skilað þessu vandræðaástandi og bara nánast neyðarástandi sem við erum stödd í hér í dag á húsnæðismarkaðnum. Óhreinu börnin sem fást ekki rædd í ríkisstjórninni, það þarf að einbeita sér að því að leysa úr málum þeirra. En hæstv. innviðaráðherra, formaður Framsóknarflokksins, hann virðist ekki hafa neinar áhyggjur af þessu. Einu tillögurnar sem hafa komið fram í þinginu um húsnæðismál snúa að því að afnema eða gera undanþáguheimildir fyrir húsnæði fyrir hælisleitendur, að búa þannig um hnúta að það sé hægt að líta fram hjá reglum um brunavarnir og hollustuhætti sem er í sjálfu sér með ólíkindum. Ef heldur svo fram sem horfir er alveg ljóst að þessi leigufélög muni færa sig enn frekar upp á skaftið og staða leigjenda mun enn versna og það endar bara á einn veg; að fólk mun fara og mótmæla þessu. Þetta er ekki líðandi. Þó að það sé ágætt að þessir myndugu ráðherrar séu uppteknir virðist vera megnið af sínum vinnutíma við að leysa heimsmálin í Úkraínu og jafnvel í Kína, eða hvar þeir eru að leysa úr málum, þá held ég að það sé kominn tími á að skoða málefni þessa hóps leigjenda sem mætti ætla að væri þetta óhreina fólk ríkisstjórnarinnar.

En það er rétt skoða: Er þetta ástand eitthvað sem Framsóknarflokkurinn lofaði þegar hann var að boða það að allir ættu að vera á miðjunni? Var hann ekki að boða eitthvað allt annað? Lausnir? Nei, þetta er alla vega ekki eitthvert ástand sem hann kynnti en þetta eru afleiðingarnar af stjórnarathöfnum og stjórnarathafnaleysi flokksins. Hann boðaði í rauninni að samtvinna húsnæðismálin og skipulagsmálin og koma með lausnir. Það er bara allt annað. Hann er ekkert í einhverri miðju í íslenskri pólitík, Framsóknarflokkurinn er kannski miklu frekar, eins og hann horfir alla vega við okkur í Flokki fólksins, bara í miðju gróðapunganna. Hann virðist bara vera þar og hugsa fyrst og fremst um þeirra hag en skeytir ekkert um hag almennings. Það er sorglegt að horfa upp á það að flokkur, ég vil segja vinnandi fólks til sjávar og sveita skuli ganga svona fram. Manni dettur bara í hug hvað Jónas frá Hriflu hefði sagt um stjórnarathafnir núverandi formanns Framsóknarflokksins. Það væri ekki fallegt. Ég bara hvet ágæta þingmenn Framsóknarflokksins að skoða þessa stefnu sem er rekin hér af formanni flokksins og hvort hún samræmist því sem kjósendum var lofað og er að finna í stefnumálum flokksins. Fyrir mér er það augljóst: Svo er bara alls ekki.

Svo er nú ágætt líka að líta yfir stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins. Þeir boða hér séreignastefnu og gott ef það kemur ekki fram í stefnuskrá flokksins að þeir ætli að stuðla að hagkvæmum úrræðum á leigumarkaði. Ég get ekki séð að það sé nokkuð sem bendir til þess að það muni bóla á því hjá núverandi formanni. Ég held að séreignarstefnan hafi nú eitthvað snúist þar í höndunum á honum og snúist kannski fyrst og fremst um séreignarstefnu flokkseiganda. Ég held líka að þessi séreignarstefna flokkseigendaflokksins, þar sem er í rauninni verið að koma íbúðum meira og minna inn í einhvern gróðabaksfélög, geti bara verið hættuleg fyrir flokkinn þótt ég ætli ekkert að vera að gefa honum góð ráð í tíma og ótíma. Það er augljóst að með því að skapa hér þannig ástand að ungt fólk geti ekki eignast húsnæði eða eigi vart fyrir leigunni eða sé í höndunum á einhverjum grimmum leigufélögum þá er það ekki einhver segull fyrir ungt fólk að ganga til liðs við þennan flokk.

Auðvitað vonar maður að þetta breytist og það verði einhver umræða þannig að þessari firringu innan stjórnarflokkanna linni. Þetta er stór hópur sem þetta mál snertir. Það kom fram hjá hv. þm. Ingu Sæland að nú væri fólkið sem væri inni á þessum leigumarkaði að einhverju leyti að hrekjast af honum og inn á ættingja og vini. Og ég bara spyr: Hvers konar vini eiga þá þingmenn í stjórnarflokkunum ef enginn þeirra er í þessum hópi? Ég á bágt með að trúa öðru en þetta ástand sem er núna að skapast á leigumarkaði snerti bara með beinum hætti almenna þingmenn í stjórnarflokkunum. Það hlýtur að gera það.

Ég tel að ríkisstjórnin verði að snúa við blaðinu í þessu máli og líta ekki á þennan hóp eins og eitthvert óhreint fólk og skoða líka aðra þætti sem eru þessum húsnæðismarkaði óhagfelldir, svo sem hækkanir á vöxtum sem eru ekki beint til þess að hvetja til framkvæmda, heldur miklu frekar hitt að letja framkvæmdir. Það verður til þess að það verður þá miklu frekar minna framboð á húsnæði heldur en ef vextirnir væru með einhverjum siðlegri hætti í landinu.

Svona í lokin þá tel ég rétt að minna ríkisstjórnina á að líta einnig til þeirra sem minna mega sín í þessu samfélagi og hætta að skattleggja fátækt.