Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 102. fundur,  3. maí 2023.

bætt staða og þjónusta við Íslendinga búsetta erlendis.

325. mál
[18:06]
Horfa

Flm. (Gísli Rafn Ólafsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Af hverju dagar svona hluti uppi? Jú, eitt af grundvallaratriðum lýðræðisins er einmitt það að kjósendur geta haft samband við þingmenn og bent á ákveðnar brotalamir í kerfinu. Þetta þekkist í öllum löndum. Það er hins vegar þannig hér inni á hinu háa Alþingi að ef einhver annar en ráðherra kemur með hvort heldur er þingsályktunartillögu eða lagafrumvarp, svo lengi sem þetta er svokallað þingmannamál, þá eru einungis eitt eða tvö slík frá hverjum flokki sem fá blessun í þinglokasamningum á hverju ári. Í stað þess að horfa yfir öll málin og segja: Já, heyrðu, þetta væri nú gott að gera. Já, heyrðu, þetta er nú alveg rétt hjá þeim, ég er t.d. með frumvarp um meðlagsgreiðendur erlendis. Þetta er bara villa sem við gerðum hér á þinginu. Heyrðu, við ættum nú að laga þetta. — En nei, af því að það kemur frá hv. þingmönnum en ekki ríkisstjórn þá fær það ekki að lifa. Þetta er nú allt þingræðið sem við búum við. Þetta þurfum við að laga. Það lagast bara ef við hv. þingmenn tökum okkur saman og hættum að leyfa einhverjum örfáum aðilum að stjórna því hvað fer í gegn. Varðandi það að búa erlendis og reka sig á þessa hluti, ef við tökum bara íslenskukennsluna eins og hv. þingmaður nefndi, þá hef ég séð hvernig aðrar þjóðir gera, hvernig þær borga t.d. dönskukennslu á erlendri grund, hvernig þær setja metnað í að tryggja það að kunnátta í tungumáli og þekking á menningu haldist þótt fjölskyldur flytji til útlanda.