Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 102. fundur,  3. maí 2023.

bætt staða og þjónusta við Íslendinga búsetta erlendis.

325. mál
[18:08]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Vissulega eiga góð þingmannamál stundum erfiðan framgang svona fyrsta kastið. En ég myndi mælast til þess að klókir stjórnmálamenn sem halda um stjórnartaumana tækju þetta mál upp og gerðu að sínu ef þeir eru of litlir karlar til að hleypa þessu bara einfaldlega í gegn, sem væri hið besta mál, þ.e. að fara rækilega í skoðun á þessu máli.

Hvað varðar íslenskukennsluna og fræðsluefnið þá er hægt að leysa þetta með svo margvíslegum hætti. Það eru bara ofboðsleg tækifæri í þessu. Það er breytt tækni. Við horfum upp á það að það er orðið fjarnám víða og fjarnám gæti alveg eins farið fram í barnaskólum að einhverju marki og þessir krakkar sem vilja halda við íslenskunni og tengslum við landið gætu verið í fjarnámi við ákveðna skóla. Það er leikur einn að koma til móts við þetta. Mér finnst þetta bara vera hið besta mál. Þetta er tækifæri. Það er lítið mál að halda utan um kennsluefni núna, það er þess vegna á netinu. Börnin gætu þá bara gengið í ákveðnar möppur og síðan væri ekki úr vegi að hafa einhverja yfirumsjón með þessu þannig að börnin og foreldrarnir gætu leitað eftir leiðbeiningum um hvernig þau eiga að haga náminu. Þarna eru gríðarleg tækifæri. Það eru mikil tækifæri í því að halda tengslum við þá Íslendinga sem búa erlendis. Þetta er gott mál sem ég vonast til þess að meiri hlutinn taki nú bara í fang sér og hleypi í gegn. Þetta ættu allir Íslendingar að geta sameinast um.