Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 103. fundur,  8. maí 2023.

aðgerðir stjórnvalda fyrir heimilin í landinu.

[15:10]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið, í rauninni ekkert svar. Hún er greinilega enn þá með höfuðið á kafi í sandinum og augun full af sandi. Þegar verið er að tala um stöðu heimilanna, hvað þau séu frábær akkúrat núna, gerir þá hæstv. ráðherra sér grein fyrir því að það er verið að brenna upp sparifé landsmanna? Landsmenn eru að brenna upp séreignarlífeyrissparnaðinn sinn hér og nú til þess að reyna að greiða inn á húsnæðislánin. Er hæstv. forsætisráðherra algerlega veruleikafirrt hvað lýtur að því hver raunveruleg staða er að teiknast upp á húsnæðismarkaði með skuldug heimili? Það sem hæstv. ráðherra er ítrekað að tala um, skattalækkanir og allt þetta frábæra sem er verið að gera fyrir fólkið hér — það er 0,0 sem ég gef því vegna þess að þetta er hálfkák, hæstv. forsætisráðherra.

Við skulum vona að hæstv. ráðherra hafi rétt fyrir sér um að þjóðin muni hafa trú á því sem hún er að segja hér. En ég veit ekki betur en ég hafi komið hér síðustu þrjú árin og varað við þessari verðbólgu og ég veit ekki betur en að hæstv. forsætisráðherra ásamt hæstv. fjármálaráðherra hafi í engu gert neitt með það sem við höfðum hér að segja, (Forseti hringir.) ég og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson, þegar við vorum að vara við því sem koma skyldi hér ef ekkert yrði að gert. (Forseti hringir.) Og enn er ekkert að gert nema 12 sinnum hækkun stýrivaxta. Og verðbólgan heldur áfram að hækka.