Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 103. fundur,  8. maí 2023.

aðgerðir stjórnvalda fyrir heimilin í landinu.

[15:12]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég man vel eftir þeim aðvörunarorðum sem féllu í þessum sal þegar við vorum að takast á við afleiðingar heimsfaraldurs. Þá var það atvinnuleysið sem hv. þingmenn höfðu mestar áhyggjur af (IngS: Nei, verðbólgu.) og atvinnuleysið nú er lágt. Það er lítið, alveg þvert á það sem talið var hér í þessum sal á þeim tíma.

Ég ætla líka að minna hv. þingmann á að hér hefur verið lögð fram fjármálaáætlun þar sem er boðað ekki bara aðhald í ríkisrekstri heldur er líka boðuð aukin tekjuöflun. Hv. þingmaður spyr sérstaklega um hvar hún eigi að leggjast. Jú, á hvað erum við að leggja þessa tekjuöflun? Er ekki verið að boða hækkun veiðigjalda, hækkun fiskeldisgjalda (IngS: Hvenær var það aftur?) og hækkun skatta á lögaðila? (IngS: Næsta ári.) Jú, því að fjármálaáætlun (Forseti hringir.) snýst um það hvernig við ætluðum að haga okkar áætlanagerð til lengri tíma. Það er það sem hagstjórn snýst um. Hún snýst ekki um að bregðast við frá degi til dags, eins og einhverjir hv. þingmenn kynnu að halda, heldur snýst hún um það að gera áætlanir og reyna að standa við þær áætlanir.