Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 103. fundur,  8. maí 2023.

hvalveiðar.

[15:38]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og fyrir að nálgast hana með þessum hætti, þ.e. þá staðreynd sem fyrir liggur, sem er að þekking okkar er engan veginn fullnægjandi er varðar lífríki og vistkerfi hafsins. Við höfum lagt áherslu á, þessi ríkisstjórn og ég í embætti matvælaráðherra, að auka fjármuni til hafrannsókna, ekki bara til að kanna betur vistkerfisgrunninn heldur líka til að vera betur á vaktinni varðandi loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á lífríki sjávar, sem væri mjög mikilvægt fyrir okkur að hafa í huga.

Hv. þingmaður nefnir hér reglugerð sem ég setti í fyrra til að MAST gæti stundað reglubundið eftirlit með velferð dýra við veiðar á hvölum og það var gríðarlega mikilvægt skref sem var stigið með því, enda lít ég svo á að það sé eitt af mínum mikilvægustu hlutverkum í embætti að undirbyggja allar ákvarðanir með bestu mögulegu vísindalegri þekkingu. Þar með talið er það að ég hef óskað eftir skýrslu Eddu Elísabetar Magnúsdóttur um áhrif hvalveiða á vistkerfi og sú vinna er í gangi, þannig að ég vil fá sem breiðastar upplýsingar um hvað liggur þarna til grundvallar og hvernig staðan er.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um niðurstöður skýrslunnar og það er þannig að niðurstaða Matvælastofnunar er sláandi, þ.e. að veiðarnar séu ekki í samræmi við markmið laga um velferð dýra. Framkvæmd laganna er í höndum Matvælastofnunar og stofnunin hefur í samræmi við lög um velferð dýra leitað álits fagráðs um velferð dýra; hvort veiðarnar geti yfir höfuð uppfyllt markmið laganna um velferð dýra. Leyfið sem þessi framkvæmdaraðilar hafa gildir til ársins 2023, þ.e. til næstu áramóta. Það er vandkvæðum háð að afturkalla leyfið sem nú er í gildi, (Forseti hringir.) en það vakna sannarlega ýmsar spurningar um það hvort þær aðferðir, sem beitt er við þessar veiðar og samræmast tæpast lögum um dýravelferð, (Forseti hringir.) geri það ekki að verkum að við stöndum frammi fyrir því að endurskoða það hvort þessi atvinnugrein tilheyri ekki fortíð frekar en framtíð.