Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

Störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur orðið heilbrigði fyrir 40 sinnum, ýmis eitt og sér eða með öðru, svo sem geðheilbrigði, heilbrigðisþjónusta, heilbrigðisstofnanir o.s.frv., þótt minna sé um árangur í málaflokknum. Á listanum í sáttmálanum yfir það sem gera skal í heilbrigðismálum er þetta brýna verkefni, með leyfi forseta:

„Áfram verður dregið úr greiðsluþátttöku sjúklinga með áherslu á viðkvæma hópa.“

En ég hef fréttir að færa hv. stjórnarþingmönnum sem styðja þessa ríkisstjórn: Fólk sem þarf á þjónustu sérgreinalækna í einkarekstri að halda borgar stöðugt hærri upphæðir fyrir þjónustuna eftir því sem samningar ríkisins og læknanna dragast á langinn og samningarnir hafa verið lausir í fjögur ár og fjóra mánuði.

Sjúklingar eru rukkaðir yfir borðið á læknastofum um aukagreiðslur utan greiðsluþátttökukerfisins. Hæstv. heilbrigðisráðherra er úrræðalaus og ríkisstjórnarflokkarnir sitja á áhorfendabekkjunum og fylgjast með langveiku fólki greiða hærri upphæðir en það ræður við og sum hafa ekki lengur efni á að fara til læknis.

Hvað hafa ríkisstjórnarflokkarnir, Framsókn, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn, aftur verið lengi í ríkisstjórn? Næstum allan þann tíma hefur aðgengi að heilbrigðisþjónustu verði háð því hversu vel stæðir sjúklingarnir eru. Verður heilsa fyrir hátekjufólk næsta grípandi slagorð sem Framsókn fer með í kosningabaráttu? Ég hef ítrekað spurt hæstv. heilbrigðisráðherra um þessa alvarlegu stöðu en fátt er um svör. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér virðist ríkið ekki vita hvaða þjónustu það vill kaupa eða semja um, að hvorki kröfulýsingar né þarfagreiningar liggi fyrir. Á meðan láta stjórnarflokkarnir það viðgangast að farið sé á svig við markmið laga um aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Hátekjufólkið hefur efni á því að veikjast. Eru þá allir sáttir?