Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

Störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Forseti. Mig langar að tala aðeins um spillingu. Ein höfuðástæða þess að við Píratar erum til og höldum áfram að vera til er að vinna gegn spillingu og sérhagsmunum á kostnað þeirra almennu. Því miður höfum við enn næg verkefni og við sjáum birtingarmyndir spillingar víða. Það eru þrjú ár síðan við komumst af gráum lista alþjóðlegs fjármálaaðgerðahóps ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti, lista sem við hefðum aldrei átt að vera á. Á lista Blaðamanna án landamæra er Ísland í 18. sæti yfir þau lönd sem tryggja best fjölmiðlafrelsi, talsvert langt frá frændþjóðum okkar í Skandinavíu sem við viljum gjarnan bera okkur saman við. Og hver skyldi vera ástæðan fyrir því að við vermum það sæti en erum ekki í topp fimm eins og við vorum árin í kringum 2010? Í þetta skiptið er óþarfi að giska á ástæðuna; það er vísað beint til viðbragða umfjöllunar fjölmiðla um Samherja í, með leyfi forseta, Fishrot Files. Miðað við yfirlýsingar ráðherra ríkisstjórnarinnar varðandi þau viðbrögð þótti ráðherrum ríkisstjórnarinnar ekki neitt við þau að athuga. Við þetta bætist að þrátt fyrir að líkamlegt öryggi blaðamanna sé ágætlega tryggt er nokkuð um að þau sem sinna blaðamennsku sæti hótunum og þá sérstaklega konur. Lykillinn að því að uppræta spillingu er að tryggja öryggi blaðamanna. Ef við sem hér störfum viljum geta gengið að því sem vísu að fjölmiðlar veiti okkur á Alþingi aðhald — og miðað við hvernig hefur verið haldið á málum varðandi söluna á Íslandsbanka og Lindarhvolsskýrsluna er ekki vanþörf á, mál sem eru svo furðuleg og neyðarleg fyrir okkur sem hér starfa að ég skil hreinlega ekki hvers vegna ekki er gengið í að klára þessi mál svo sómi sé að í samræmi við lög.