Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

Störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegi forseti. Í byrjun árs kom berlega í ljós að ákvæði laga um miðlunartillögu ríkissáttasemjara er marklaust. Sú heimild var fyrst og fremst til þess fallin að höggva á hnútinn þegar kjaraviðræður hafa siglt í strand með því að færa valdið til félagsmannanna sjálfra og leyfa þeim að greiða atkvæði. Mörkin eru reyndar of há til þess að það sé raunhæft að hafna miðlunartillögu í stóru stéttarfélagi eins og Eflingu, en deilan þar snerist ekki um það heldur hreinlega hvort ríkissáttasemjari geti beitt henni og útkoman er að hann getur það ekki. Í kjölfarið hafa einstaka ráðherrar nefnt að það þurfi að skýra heimildir ríkissáttasemjara til framlagningar miðlunartillögu og skyldu stéttarfélaga til afhendingar kjörskrár. Það verður ekki gert nema með því að breyta lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur. Þar sem samningarnir sem búið er að undirrita eru einungis til nokkurra mánaða er nauðsynlegt að það sé engum vafa undirorpið að hlutverk ríkissáttasemjara sé skýrt og þær heimildir sem hann hefur yfir að ráða liggi fyrir. Þannig er það ekki í dag.

Þessu til viðbótar er allt útlit fyrir að verkföll muni skella á í mörgum sveitarfélögum þar sem félagsmenn í BSRB hafa samþykkt verkfallsboðun. Það mun hafa mikil og vond áhrif á starf sveitarfélaganna, svo sem í leikskólum og grunnskólum þar sem þessir starfsmenn gegna mikilvægum hlutverkum. Maður hefði því haldið að á málaskrá ríkisstjórnarinnar yrði að finna frumvarp til að breyta þessu, mikið liggur við og tíminn er ekki að vinna með ríkisstjórninni, en þess sjást þó engin merki. Ég beini því spurningu til hæstv. ríkisstjórnar: Þarf ekki að skýra leikreglurnar ef til átaka kemur á vinnumarkaði? Hvað halda ráðherrarnir að vinnist með því að láta þetta bíða?