Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

Notkun ópíóíðalyfja.

[14:47]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni, fyrir framtakið; fyrir að leiða athygli þingsins að þessu brýna málefni sem ópíóíðafaraldurinn er og að vanköntum heilbrigðiskerfisins þegar kemur að þjónustu við fólk með vímuefnavanda. Hæstv. heilbrigðisráðherra á sömuleiðis skilið þakkir fyrir framsöguna og þá athygli og árvekni sem hann hefur sýnt í málaflokknum. Ég hef sagt það hér áður að það er ótrúlegt að verða vitni að sinnuleysi samfélagsins gagnvart fólki sem deyr nú í hrönnum úr vímuefnasjúkdómi. Þar erum við ekki undanskilin. Þetta er sérstaklega umhugsunarvert í ljósi þess að við höfum nýlegt dæmi um samtakamáttinn, einbeitinguna og alúðina sem þjóðin býr yfir þegar hún telur hættu steðja að fólkinu okkar. Við þurfum að horfast í augu við það af hverju staðan er eins og hún er, af hverju þessir sjúklingar fá ekki sömu aðhlynningu og annað langveikt fólk, af hverju aðstandendur koma alls staðar að lokuðum dyrum og standa einir í baráttunni við kerfið.

Virðulegur forseti. Eins og málshefjandi hefur farið hér yfir hafa tugir einstaklinga þegar látið lífið á þessu ári vegna ofskömmtunar. Þróunin er ógnvænleg og flest fórnarlömbin eru ungt fólk. Þessi staða er þyngri en tárum taki. Eins og málshefjandi bendir sömuleiðis á er brýn þörf á því að styðja við og auka meðferðarúrræði. Það er einfaldlega ekki boðlegt í velferðar- og velmegunarsamfélagi eins og okkar að fólk með lífshættulegan sjúkdóm komi að lokuðum dyrum í heilbrigðiskerfinu.

Virðulegi forseti. Við vitum að besta meðalið gegn þessum faraldri er að efla og auka skilvirkar forvarnir, fræðslu og meðferðarúrræði, eins og fleiri hv. þingmenn hafa komið inn á í dag þótt aðrir hafi haft aðrar áherslur. Við skulum ekki láta okkar eftir liggja þar, við þingmenn og hæstv. heilbrigðisráðherra.