Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

Notkun ópíóíðalyfja.

[15:06]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa umræðu sem hér hefur farið fram. Hún er náttúrlega sett fram á mínum skoðunum, engra annarra. Við höfum auðvitað mjög skiptar skoðanir í þessu máli, eðlilega. Ég held að þetta sé málaflokkur sem við ættum frekar að reyna að ná saman um í stað þess að vera með einhverjar persónulegar krytur eða skeytasendingar. Við ættum heldur að einblína á að ná saman af því að það höfum við oft getað gert í mörgum góðum málum hér og ég held að það sé í rauninni vilji allra hérna og þar fór ráðherra fremstur í flokki. Ég þakka honum fyrir að taka vel undir. Ég vil líka þakka hv. þm. Tómasi A. Tómassyni fyrir frábæra ræðu, bestu ræðuna í dag. Ég held að það sé mjög mikilvægt að nýta reynslu manna eins og hans.

Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að þetta er gríðarlega flókinn málaflokkur. Þetta er líka kostnaðarsamur málaflokkur. Þegar við horfum til ársreiknings SÁÁ kemur í ljós að einn fjórði af tekjum félagsins og samstæðunnar er sjálfsaflafé. Ég er ekkert viss um að við viljum að það sé þannig, þótt það sé ágætiskostur. Ég sé ekki fyrir mér að yfirmenn annarra heilbrigðisstofnana í landinu fari að safna peningum til að halda rekstrinum úti en það þurfa þeir að gera hjá SÁÁ, Hlaðgerðarkoti og Krýsuvíkursamtökunum. Það eru ótrúlega margir sem koma að máli og ég held að árangurinn í starfinu — vissulega þarf það að vera fjölbreytt, ég tek algjörlega undir það að meðferðarúrræðin þurfi að vera fjölbreytt, en fagmennskan og yfirbragðið á allri þessari meðferð hjá bæði SÁÁ og öðrum, SÁÁ er flaggskip flotans og er ekki aðeins fyrirmynd á Íslandi heldur fyrirmynd úti um allan heim um hvernig við höfum náð árangri í þessum málaflokki.

Ég þakka fyrir umræðuna, ég þakka ráðherranum fyrir og ég þakka þingmönnum fyrir innleggið.