Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

dómstólar.

822. mál
[15:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um frumvarp er lýtur að fjölgun dómara við Landsrétt. Nefndin hefur fjallað um þetta mál og fékk að sjálfsögðu ráðuneytið til að kynna það og eins bárust umsagnir frá Dómarafélagi Íslands og dómstólasýslunni. Með þessu frumvarpi er lagt til að dómurum við Landsrétt verði fjölgað varanlega um einn, þ.e. úr 15 í 16.

Landsréttur tók til starfa 1. janúar 2018 á grundvelli laga um dómstóla og var þá mælt fyrir um að dómararnir yrðu 15. Líkt og kemur fram í greinargerð með fyrirliggjandi frumvarpi hafa þær forsendur sem horft var til varðandi fjölda dómara breyst. Þar segir m.a. að nokkur röskun hafi orðið á starfsemi Landsréttar frá stofnun hans og dómstóllinn stóran hluta þess tíma verið undirmannaður. Dómstólasýslan vakti athygli dómsmálaráðuneytisins á því hinn 7. desember 2022 að brýn þörf væri á að fjölga dómurum við Landsrétt svo unnt væri að halda ásættanlegur málshraða við dómstólinn og eru forsendur þess nánar raktar í greinargerð með frumvarpinu. Meiri hlutinn tekur undir nauðsyn þess að fjölga dómurum um einn þar sem mikilvægt sé að tryggja að starfsemi Landsréttar sæti ekki frekari röskun og unnt sé að skipuleggja störf réttarins svo að málsmeðferðartími lengist ekki enn frekar. Meiri hlutinn undirstrikar að það er grundvallarréttur aðilar fá réttláta málsmeðferð fyrir dómstólum, þar á meðal að málsmeðferð fari fram innan hæfilegs tíma.

Í umsögn Dómarafélag Íslands um málið er jafnframt vakin athygli á álitaefni er varða setningu í embætti dómara vegna leyfisskipaðs dómara og hvort tímabundin setning kunni að hafa áhrif á sjálfstæði og störf dómara. Það leiðir af orðalagi 61. gr. stjórnarskrárinnar að dómarar skuli skipaðir ótímabundið. Heimilt er samkvæmt ákvæðum laga nr. 50/2016, um dómstóla, að setja dómara tímabundið til allt að 12 mánaða sem getur verið nauðsynlegt til að stuðla að skilvirkni dómkerfisins. Dómarafélagið telur það vekja upp spurningar um hvort ákvæði laganna um heimild til að setja dómara á öllum dómstigum til sex ára vegna leyfis skipaðs dómara til að starfa hjá alþjóðadómstól eða alþjóðastofnun samrýmist sjónarmiðum um sjálfstæði dómstóla. Meiri hlutinn tekur undir þessar ábendingar Dómarafélagsins og er sammála því að mikilvægt sé að skoða hvernig bregðast megi við þessari stöðu með mögulegum breytingum á lögum um dómstóla. Meiri hlutinn beinir því til dómsmálaráðherra að skoða mögulegar leiðir til þess og, ef tilefni er til, að leggja fram frumvarp til breytingar á dómstólalögum sem fyrst.

Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta nefndarálit skrifa, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Birgir Þórarinsson, Jódís Skúladóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.