Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[16:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Jódís Skúladóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er nú bara allri lokið eftir þessa þrumandi ræðu hv. þingmanns og félaga hér í þinginu. Hér er mikið talað um hagsmunafulltrúa eldra fólks og mikla eftirspurn eftir því og ég veit að flokkur hv. þingmanns hefur gengið mjög hart eftir því og spurt hér ítrekað um stöðu starfshóps og annað. Nú er það svo að starfshópur var skipaður um þetta og á niðurstöðum þess starfshóps eru aðgerðir í Gott að eldast byggðar. Starfshópurinn mat það svo að það væri ekki ráðlegt að stofna embætti hagsmunafulltrúa að svo stöddu. Það þyrfti að efla upplýsingagjöf til eldra fólks. Þess vegna eru tvær aðgerðir, B.2 og B.3, sérstaklega til þess fallnar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Það var gengið mjög hart á eftir því að fá þennan starfshóp en ætlum við svo ekki að hlusta á þeirra tillögur og eigum við að fara þvert á þeirra …(GIK: Ég veit ekkert um þennan starfshóp.)— já, mikið hefur verið spurt um hann a.m.k., báðir hv. þingmenn, að ég tel, a.m.k. formaður.

Hitt er svo það að við erum að ræða hér um aðgerðaáætlun og eina tengingin við umræðu um hjúkrunarheimili er í rauninni sú að við erum að styrkja stöðu eldra fólks þannig að til frambúðar þurfi færri að flytja á hjúkrunarheimili, ég veit ekki hvort ég á að segja ótímabært heldur að fólk geti verið lengur heima. Það er tengingin. Hér erum við ekki að ræða um hjúkrunarheimilin, við erum ekki að ræða um yngra fatlað fólk.

Mér finnst líka flókið að hlusta á hv. þingmann tala um eldra fólk og fatlað fólk og alls konar fólk sem einsleitan ósjálfbjarga hóp. Það er fullt af fólki sem þarf mikla þjónustu og þetta eru manneskjur. Mér misbýður svo þegar það er sagt að við sem erum að vinna hér að góðum málum (Forseti hringir.) horfum á þetta sem ekki fólk og að hér sé bara farið illa með fólk. Það er verið að vinna að betri stöðu eldra fólks. (Forseti hringir.) Eru ákveðnir hópar sem þurfa meira? Já, vissulega og að því þurfum við að vinna áfram.