Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[16:22]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að standa fast á því að ég talaði aldrei um tugi þúsunda. Ég sagði að eldri borgarar yrðu tugir þúsunda þegar þeir færu inn. Og ég talaði aldrei um það yrðu tugir þúsunda í einu eða neinu samtali heldur benti ég bara á þá staðreynd að það væru biðlistar alls staðar í kerfinu og það væri alls staðar á bið. Þessir biðlistar eru ekki að hverfa og hafa ekki horfið síðan ég kom hér á þing. Þeir hafa lengst. Þannig að það er alveg á hreinu.

Á að byggja hjúkrunarheimili? Já, við erum með lög um það. (Gripið fram í.) Við erum með Framkvæmdasjóð aldraðra. Þingmaðurinn segir val. Auðvitað á fólk val um að fara. En það er staðreynd, eins og læknir sagði sem kom fyrir nefndina, að allir enda í lokin inni á hjúkrunarheimili, það er ekki spurning um hvort, jafnvel tvö síðustu árin, tvö, þrjú síðustu ár ævinnar. Það er staðreynd. Og það er líka staðreynd að það eru biðlistar. Það er staðreynd. Þingmaðurinn getur ekki einu sinni neitað því. Á sama tíma sér hún eitthvað í framtíðinni. Jú, við munum eldast en það kemur að því að þegar þú ert kominn á síðasta æviskeiðið þá þarftu þessa aðstoð og þá áttu að hafa val um hana en þú átt ekki að vera á biðlista.

Ég veit t.d. að í Danmörku er það þannig að þar eru meira að segja hjúkrunarheimilin skylduð til að hafa tvö, þrjú rúm alltaf tilbúin í neyðarástandi. Hér dettur það engum í hug. Hér má bara þakka fyrir að þú hangir uppi og lifir af áður en þú kemst inn á hjúkrunarheimili. Það er grafalvarlegt mál.

Síðan er þetta auðvitað alvarlegt mál vegna þess að við verðum að horfa á þá staðreynd að þegar fatlað fólk verður aldrað fólk læknast það ekki við það. Það þarf meiri þjónustu. Það er það sem ég var að tala um. Ég var ekki að tala niður til þessa fólks, heldur var ég að berjast fyrir því að það yrði ekki bara hreppaflutt á eitthvert hjúkrunarheimili, eins og hefur verið gert úti á landi, án þess liggur við að spyrja það. Aðstandendur geta ekki heimsótt það. Þetta er okkur til háborinnar skammar.