Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[17:01]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni, ég tel að orð skulu standa. Ég er nýr þingmaður og mér þótti það kúnstugt þegar þingmenn komu upp alveg í „lange baner“ við að endurflytja mál sem þeir höfðu flutt svo árum skipti af því að þau fengu aldrei neina afgreiðslu. Þau komust bara í gegnum 1. umr. og inn í nefnd og þar ofan í skúffu. Ég held að það séu fullar skúffur af slíkum málum, ekki bara eftir þetta þing heldur mörg önnur þing. Það er eins og þetta sé þannig að ef þú ert í minni hluta og leggur fram eitthvert mál, þó að það sé gott, þá er það bara ekki samþykkt. (Gripið fram í.) Manni þykir það sérstakt. En auðvitað, þegar búið er að samþykkja mál, hvers vegna er því ekki hrundið í framkvæmd? Það er kannski eitthvað sem maður á erfitt með að átta sig á. Það má kannski líka velta fyrir sér öðrum leiðum. Af hverju tökum við ekki upp eitthvert annað vinnulag, að flokkar eigi einhvern rétt á að leggja fram þingmál í samræmi við styrkleika sinn? Minni hlutinn, sem er kannski 40% á móti 60% meiri hluta, fengi þá að koma 40% af málum í gegn með einhverjum hætti. Sama hver afdrif málanna verða síðan í þingsal þá verði alla vega gefinn kostur á því að ræða þau og greiða atkvæði um það hér í þingsal og ekki láta góð mál sofna í skúffu nefnda, sem er auðvitað bara fáránlegt. Við erum að sjá þetta gerast núna. Það er ekkert langt í þinglok og við erum að ræða fullt af málum sem munu ekki klárast af því að þau voru ekki á borði meiri hluta þingsins.