Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[17:08]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Frú forseti. Mig langar að koma hér upp og fagna þessari góðu tillögu um aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk. Kröfur eldra fólks til þjónustu hafa breyst verulega frá því sem áður var, enda eru breytt viðhorf í samfélaginu sem kalla á nýja nálgun og útfærslu í þjónustu með áherslu á aldursvænt, heilsueflandi og styðjandi samfélag. Með þessari tillögu sem vonandi verður samþykkt hér á næstu dögum er verið að tryggja að komið sé til móts við eldra fólk og því veitt þjónusta við hæfi, hvort sem um er að ræða heimaþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu. Þjónustuna á að veita þegar hennar er þörf á forsendum fólksins sjálfs og á réttu þjónustustigi. Með þeim þjónustu- og aðgerðaáætlunum sem hér er lagt upp með verða til verkfæri til að bæta forvarnir, heilsueflingu og endurhæfingu en það er lykillinn að heilbrigðri öldrun þjóðarinnar. Þessi heildarendurskoðun fer þvert á þjónustukeðjuna, þ.e. hjúkrunarheimilin, sérhæfða heimaþjónustuna og endurhæfinguna, dagþjálfun, heimaþjónustu, félags- og heilbrigðisþjónustu ásamt þjónustu sveitarfélaga en þannig má hámarka árangurinn. Við blasir að aldurssamsetning þjóðarinnar er að breytast og fjöldi eldra fólks eykst sem, þrátt fyrir áskoranir, er vissulega fagnaðarefni. Við sem þjóð verðum að vera í stakk búin til að mæta þeim aukna fjölda og sú vegferð er raunar þegar hafin. Í tillögunni eru lögð fram þróunarverkefni og prófanir sem nýtast munu við ákvarðanatöku um framtíðarfyrirkomulag þjónustu við eldra fólk. Í því samhengi langar mig sérstaklega að fagna áætlun um mælaborð þar sem hægt verður að sækja í rauntíma ýmsar tölulegar upplýsingar sem varða eldra fólk. Þjónusta við eldra fólk þarf ekki eingöngu að vera skilvirk og veitt eftir bestu þekkingu heldur verður hún að taka mið af þeim óskum og væntingum sem eldra fólk og aðstandendur þess hafa. Með mælaborði sem þessu má betur fylgjast með því hvort þær aðgerðir sem ráðist verður í beri tilætlaðan árangur.

Virðulegi forseti. Við sem þjóð viljum huga vel að okkar fólki. Eldra fólk sem hefur greitt götu okkar sem yngri erum á skilið að fá að eldast með virðingu. Hér er um að ræða verkefni í sama anda og farsæld í þágu barna þar sem einstaklingurinn er þungamiðjan sem verkefnið og velferðarkerfið snýst um. Hér er lagt upp með að bæta lífsgæði fólks á sama tíma og við ætlum okkur að viðhalda færni og virkni einstaklingsins. Við vitum það að eldra fólk er fjölbreyttur hópur. Því þarf að nálgast eldra fólk með mismunandi hætti. Það sem hentar einum hentar alls ekki endilega öðrum.

Það er mikilvægt að halda til haga að sú þingsályktunartillaga sem við ræðum hér byggist á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og viljayfirlýsingu félags- og vinnumarkaðsráðherra, heilbrigðisráðherra, fjármálaráðherra, Sambands íslenskra sveitarfélaga og að auki Landssambands eldri borgara. Við erum hér að mæta áherslum eldra fólks fyrir síðustu kosningar með skýrari sýn og aðgerðum í málaflokknum.

Við verðum vonandi öll svo heppin að lifa til efri ára. Heilsa eldra fólks í dag er mun betri en þess sem á undan gekk. Eldra fólk vill vera sjálfstætt og lifa með reisn og það er, eins og hér kemur fram, ekki einsleitur hópur. Því miður höfum við orðið var við aldursfordóma hér á landi þar sem eldra fólk sem sannarlega býr yfir þekkingu og reynslu á erfitt með að fá starf við hæfi eftir ákveðinn aldur eða er jafnvel dæmt úr leik þrátt fyrir að vera bæði við góða heilsu og hafa mjög margt til málanna að leggja.

Velferðarkerfið okkar er eitt það besta í heimi en lengi má gott bæta. Lífsgæði og velmegun hér á landi byggir á þeim grunni sem eldra fólk hefur byggt. Framtíðarsýn, dugnaður og ósérhlífni einkennir eldra fólk hér á landi, fólkið sem hefur séð einhverjar mestu samfélagsbreytingar sem átt hafa sér stað hér á landi, tekist á við áskoranir sem mörg okkar sem yngri erum þekkjum ekki. Eldra fólk er ekki byrði á okkar samfélagi heldur ómetanlegur hópur sem með áræðni, vilja og dugnaði hefur komið okkur hingað á þann stað sem við erum í dag. Gleymum því ekki í umræðunni.

Að gefnu tilefni vil ég sérstaklega fagna áherslu á heilsueflingu í þessari aðgerðaáætlun en leiða má að því líkum að ekkert úrræði sem um er fjallað skili eins miklum árangri og heilsuefling eldra fólks. Rannsóknir sýna ótvírætt þann fjárhagslega, félagslega og samfélagslega ábata sem heilsuefling skilar. Það sýnir sig best með verkefnum dr. Janusar Guðlaugssonar sem stýrt hefur heilsueflandi hópum um landið og kallast Heilsuefling 65+. Við höfum séð dæmi um þátttakendur sem öðlast hafa bætta andlega og líkamlega heilsu og dæmi þar sem einangrun fólks hefur verið rofin með reglulegri virkni. Við ættum að stefna að því að tryggja aðgengi að heilsueflingu eldra fólks um allt land með stuðningi fagfólks. Þannig mætti auka lífsgæði þeirra til muna og um leið nýta fjármuni betur í heilbrigðis- og velferðarkerfi okkar.

Virðulegi forseti. Ég hef hér farið stuttlega yfir helstu þætti sem ég vildi draga fram í þessari aðgerðaáætlun en tek fram að við erum svo sannarlega að taka stór skref. Hér hefur verið nefnt í umræðunni það fjármagn sem fylgir með. Ég held að þó svo að við séum sannarlega með tölur á blaði í þessari áætlun þá verðum við að gera okkur grein fyrir því að það fjármagn sem við setjum í þennan málaflokk verður að nýtast sem best. Við verðum að forgangsraða í átt að heilsu fólksins. Þar eru forvarnirnar sannarlega bestar. Ég tel að við séum að stíga stór skref eins og ég hef farið hér yfir, en þessari vegferð lýkur aldrei. Því er mikilvægt að mælaborðið sé komið inn í þessa áætlun enda þurfum við að fylgjast náið með því hvernig okkur gengur á þessari vegferð og vera tilbúin til þess að leiðrétta kúrsinn ef við sjáum ekki þann árangur sem við væntum af viðkomandi verkefni.

Staðan í samfélaginu er þannig þegar við skoðum þá hópa sem höllustum fæti standa að eldra fólk er sannarlega hluti af þeim. Við þurfum að huga sérstaklega að þeim hópi í ljósi stöðunnar sem blasir við okkur varðandi til að mynda verðbólgu. Þó er það þannig að við þurfum að tryggja það að þeir hópar sem standa höllum fæti fái þá þjónustu sem þeir eiga skilið og nái endum saman. Staða þeirra er sannarlega áhyggjuefni og ég er að vonast til þess að við séum á réttri leið þar. En það eru aðrir hópar einnig og þegar Hagstofan skilar okkur gögnum þá er sá hópur sem ég hef mestar áhyggjur af, með fullri virðingu fyrir öllum öðrum, einstæðir foreldrar. Það þýðir ekki að við eigum að vera að velja einn hóp umfram annan. Við eigum að hafa alla hópa undir þegar við erum að reyna að tryggja velferð í landinu og tryggja að við getum komið og hjálpað fólki til sjálfshjálpar. Það er parturinn af þessari þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir og ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn fyrir framtíðina.