Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[17:27]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Frú forseti. Hv. þingmenn. Kæra þjóð. Ég er einn af þeim sem flokkast undir það að vera eldri borgari, orðinn 74 ára. Mér skilst að á þessu tímabili okkar séu milli 50 og 60.000 einstaklingar sem séu orðnir 67 ára eða eldri og þeim fer fjölgandi. Þeir sem eru orðnir 85 ára og eldri eru 6.000 og þeir verða væntanlega orðnir 22.000 eftir 30 ár, svo að þetta er aldeilis stór og merkilegur málaflokkur sem við erum að fást við, þjónusta við eldra fólk. Það hefur komið til tals að það vanti einhvern til að stjórna málum og ég segi: Ef það þarf barnamálaráðherra þá þarf eldriborgararáðherra, einstakling sem berst um á hæl og hnakka fyrir hagsmunum okkar eldri borgara og hugsar ekki um neitt annað en að passa upp á að við fáum það sem við þurfum og eigum skilið.

Það hefur verið talað um það hér að það eigi að hlúa þannig að eldri borgurum að þeir geti búið heima hjá sér sem lengst. Ég tek undir það. Ég ætla að segja ykkur hvernig ég upplifði þetta svo gjörla ekki alls fyrir löngu. Ég er einrænn. Ég bý í Grjótaþorpinu, í lítilli íbúð í kjallara, og mér finnst gott að vera einn. En ég var orðinn leiður á þessu veðri okkar þannig að um páskana, þegar ég átti 74 ára afmæli, fór ég í tíu daga til Tenerife. Ég keypti ágætishótel og svo var maður aðeins fyrir utan þannig að þetta var svolítið prívat. Ég uppgötvaði þar að eins og mér finnst gaman að vera einn heima hjá mér í Mjóstrætinu í Grjótaþorpinu þá fannst mér hundleiðinlegt að vera einn í einhverju hótelherbergi þó að það væri sól og sumar úti alla daga og fullt af góðum mat. Ég get því alveg tekið undir þá hugmyndafræði að við eldri borgarar eigum að fá að vera eins lengi heima og mögulegt er því að þar líður okkur vel, þar erum við búin að vera alla okkar tíð og þar eigum við heima.

Nú skal ég segja ykkur eitt. Einhverra hluta vegna hefur það verið viðhaft að þeir sem eru 70 ára og eldri mega ekki lengur vinna fyrir hið opinbera eins og kallað er; ríki og borg og bæi. Ég er á undanþágu af því að ég var kosinn á Alþingi. En vitið þið, það er svo merkilegt að ég er á 15% lægri launum en allir hinir þingmennirnir af því að ég er orðinn 74 ára. Hvaða sanngirni er það? Hvaða klisja er það? Af hverju fæ ég ekki þessi svokölluðu 11,5% lífeyrissjóðsgjöld eins og allir hinir? Það er bara af því að ég er orðinn 74 ára. Mér finnst það mjög óréttlátt.

Eftir höfðinu dansa limirnir. Það var frægur forseti Bandaríkjanna, sem hét Harry Truman, sem tók þá ákvörðun 1945 að setja kjarnorkusprengjurnar yfir Hírósíma og Nagasaki og hann sagði, með leyfi forseta: „The buck stops here“ — hingað og ekki lengra, ég ber ábyrgð. Það er það sem við þurfum í þessum málaflokki; einn einstakling, ekki mörg ráðuneyti, ekki marga aðila sem hafa með þetta að gera og henda þessu á milli sín eins og heitri kartöflu. Það þarf einn aðila sem gerir ekkert annað en að segja: Ég tek þetta á mig, á mínar herðar, ég sé um að málið sé í höfn. Hingað og ekki lengra. Það er það sem við þurfum. Í dag er ætlast til þess að það verði bæði heilbrigðisráðuneytið og félags- og vinnumálaráðuneytið sem sjái um þessi mál. Það þýðir að það ber enginn ábyrgð. Um leið og það eru tveir eða fleiri sem bera ábyrgð þá ber enginn ábyrgð. Það er bara svoleiðis. Það er lögmál. Við breytum ekki lögmálum. Þess vegna segi ég: Við viljum einn einstakling sem sér um okkur eldri borgara og að hann hafi vald til þess að láta hluti gerast. Þá verða allir ánægðir og málið gengur upp. Takk fyrir.