Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[17:32]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Frú forseti. Við erum hér að ræða mikilsverðan málaflokk og það eru málefni aldraðra sem er stór hópur. Þetta eru tugþúsundir manna. Það sem mér finnst rétt að ræða í framhaldi af þessu máli er hvernig þessi áætlun nálgast þann stóra hóp. Ég held að það sé rétt að setja ákveðið spurningarmerki við það. Það er búin til áætlun í mörgum liðum. Það er samþætting, eins og hv. þm. Tómas A. Tómasson kom inn á, hvernig eigi að samþætta ólíka aðila innan stjórnkerfisins; ríki og sveitarfélög og ráðuneyti. Og ekki verður það auðveldara þegar við höfum ríkisstjórn sem vill fjölga ráðuneytunum, þannig að þetta er komið hér í mörg orð. Síðan er það hvernig á að tryggja virkni aldraðra. Svo er það upplýsingagjöfin sem á víst að poppa upp á Ísland.is. Ég held að það sé nú rétt að gjalda ákveðinn varhuga við þeirri leið, ekki vegna þess að eldri borgarar eigi eitthvað erfiðara en aðrir með að nýta sér þær upplýsingar sem þar eru heldur er alveg ljóst að það þarf að taka til á þeim vef. Það er orðið erfitt að finna nokkurn skapaðan hlut þar. Það þarf að fá góðan bókasafnsfræðing í þá vinnu. Síðan eru það heimilin. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Tómasi A. Tómassyni um að auðvitað eigum við að reyna að tryggja það í lengstu lög að aldraðir geti verið heima eins lengi og þeir kæra sig um.

Eins og ég nefndi hér í upphafi er það ákveðin aðskilnaðarstefna hvernig við nálgumst þennan málaflokk. Nú ertu orðinn gamall og þá er bara komin séráætlun um þig, vinurinn. Ég er ekki alveg viss um að það sé rétt því að í þessum stóra hópi, sem telur a.m.k. 50.000 manns, er mikill félagsauður sem er rétt að nýta í félagsmál sem víðast og ef því er skipta ekki hvað síst í stjórnmálin. Við í Flokki fólksins höfum notið þess að stór hópur aldraðra hefur flykkt sér um flokkinn, og varaþingmenn hafa komið inn og lagt margt gott til málanna. Þess vegna sýnum við það hér að okkur er þessi málaflokkur afar kær og við leggjum mikið upp úr honum.

Ég held að það eigi ekkert endilega að aðskilja íþróttastarf aldraðra og annarra heldur reyna að samtvinna þennan hóp eins lengi og menn vilja sem fylla hann.

Það má nefna fleiri þætti, eins og bara félagsstarf. Þegar vinnuskyldur minnka hefur fólk meiri tök á því að sinna félagsstarfi. Það held ég að sé mjög mikilvæg nálgun hvað varðar þennan málaflokk, þ.e. að fara ekki að taka upp einhverja aðskilnaðarstefnu og að vera með tvo aðila inni á Ísland.is í að þjónusta þennan hóp.

Ég ætla að taka undir með formanni Flokks fólksins. Þetta frumvarp, svo gott sem það er, er ekki í takt við þau loforð sem voru sett fram. Það getur enginn mælt á móti því að þegar Alþingi samþykkti á sínum tíma þingsályktun um hagsmunafulltrúa eldra fólks þá var það ekki þetta sem við erum að fjalla um hér. Það er bara allt annar hlutur. Það skýtur því afar skökku við að við séum hér að fjalla um aðgerðaáætlun, mögulega aðskilnaðaráætlun, um þjónustu við eldra fólk sem á að gilda til ársins 2028. Það voru víst starfandi tveir starfshópar í ráðuneytinu sem höfðu það af að búa til frumvarp um hagsmunafulltrúann og síðan erum við komin með aðgerðaáætlun. Það er auðvitað öfugsnúið. Þess vegna er rétt að spyrja stjórnarmeirihlutann hvort hann telji enga þörf á hagsmunagæslumanni aldraðra. Alla vega er það ljóst af þeirri afurð sem kemur hér að þau telja að svo sé ekki.

Ef maður hlustar síðan á mál þeirra hér í þinginu þá kom það a.m.k. fram í máli þess sem mælti fyrir frumvarpinu að víða væri pottur brotinn og það þyrfti að taka á í mörgum málum. Þess vegna ætti viðkomandi þingmaður auðvitað að leggjast á árarnar með okkur í Flokki fólksins um að koma þessu embætti á og tryggja að það sé hagsmunavörður inni í kerfinu sem fari yfir öll mál, öll þingmál, öll félagsmál, sem fari yfir gjaldskrár t.d. sveitarfélaga og þjónustu, það teldi ég að ætti að vera ofarlega á forgangslistanum, og að láta okkur í Flokki fólksins ekki vera ein að berjast fyrir því. Þetta er miklu stærra mál en svo. Góðhjartað fólk í öllum flokkum ætti að vera sammála því að það eigi ekki að einskorða svona hagsmunagæslu eingöngu við umboðsmann barna eða umboðsmann neytenda. Það er bara þarft í nútímasamfélagi að koma þessu á. Við verðum að gæta að því að þó svo að verkalýðsfélögin gæti hagsmuna eldri félaga þá er kannski eðlilegt að áherslurnar fari annað. Það undirstrikar enn frekar þörfina á þessu embætti.

Það er líka eitt varðandi þetta Ísland.is: Það að vera að þynna þetta út, mér finnst það hálfpartinn gera lítið úr alvarleika málsins að það eigi að vera einhverjir tveir hagsmunagæslumenn, eða hvað á að kalla þá, inni á Ísland.is í einhverju netspjalli við 50.000 eldri borgara og veita upplýsingar um félagsstarf víðs vegar á landinu, kannski um bridshópinn á Sauðárkróki, ljósmyndaklúbbinn í Fjallabyggð og botsíafélagið á Höfn. Það er svolítið skrýtið að vera að grauta þessu saman við alvöruhagsmunagæslu þar sem er virkilega pottur brotinn. Við vitum öll að það eru ákveðnir þættir sem þarf að gæta betur að í okkar kerfi, það sem snýr að legurýmum aldraðra sem þarf virkilega að þrýsta betur á.

Síðan er það auðvitað svolítið þannig hér í sölum Alþingis að það er ákveðið popp í gangi. Það á alltaf að vera eitthvert spjall og app og Ísland.is. En þegar fólk þarf að fara að leita í gegnum Ísland.is er veruleikinn kannski ekki alveg eins einfaldur og hann er sagður eiga að vera. Ég þekki það nú bara sjálfur. Það var gerð mikil breyting á reglugerð um að fyrirtæki þyrftu ekki lengur á starfsleyfi að halda heldur ættu þau bara að fara inn á Ísland.is og skrá sig. Skráningin gengur nú ekki betur en svo að stórfyrirtæki sem hafa fjölda sérfræðinga í vinnu komast ekki í gegnum þá skráningu. Ég tel því að menn eigi að staldra við áður en þeir fara að vísa öldruðum í tugþúsundatali á vefinn Ísland.is til að sjá hvar botsíafélagið er með tíma eða hvenær opið er á heilsugæslustöðinni á Blönduósi eða hvað sé í gangi á Vestfjörðum fyrir eldri borgara. Ég held að það þurfi að afmarka þetta. Ég get ekki séð að það sé nokkurt vit í þessu.

Þó svo að þetta frumvarp sé eflaust vel meint þá er það auðvitað ekki það sem Vinstri grænir lofuðu hér á sínum tíma. Það er ekkert nýtt í sjálfu sér á þessu kjörtímabili að Vinstri grænir standi ekki við eitt né neitt. Við þekkjum það auðvitað sem fylgjumst vel með í sjávarútveginum. Hér mátti kannski búast við því eins og samstarfsflokkunum var skipað. En mér finnst einhvern veginn verra að svíkja gamalt fólk. Manni finnst eins og það hefði átt að koma nær samvisku flokksmanna að ganga þann veg. Það hefði átt að taka það af meiri alvöru en raun ber vitni að efna þetta fyrirheit um umboðsmann eldri borgara. Þó svo að við í Flokki fólksins getum tekið undir að það sé margt ágætt í þessu plaggi þá er það ekki þetta sem brennur á og þetta er ekki heldur það sem var lofað.

Ég vil nota tíma minn í lokin til þess að nefna það að ríkisstjórnin á að huga að því að fara betur yfir þessi skerðingamál, að skerða ekki lífeyrisgreiðslur fólks út í eitt þannig að kjör eldri borgara verði óviðunandi eða að það sem það hefur greitt í lífeyrissjóði gufi hreinlega bara upp. Í lokin viljum við minna á að ríkisstjórnin á skilyrðislaust að hætta að skattleggja fátækt.