Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[17:58]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú veit ég ekki til þess að hæstv. ráðherra hafi verið spurður að því sérstaklega hvort fallið hafi verið frá þeim áformum að setja á laggirnar hagsmunafulltrúa eldri borgara. Ég held það sé bara rétt að inna hann eftir því. Þetta var náttúrlega ekki það sem lagt var upp með í þessari atkvæðagreiðslu þegar við samþykktum hagsmunafulltrúann. Það er alveg rétt að þetta eru um 2 milljarðar og maður spyr sig: Mun hagsmunafulltrúinn rúmast innan þessarar fjárveitingar? Það er eitthvað sem væri hægt að skoða. En alla vega held ég að við eigum að fagna þessari áætlun og horfa til þess að hér er á ferðinni mjög vönduð vinna og það var haft, eins og ég nefndi í ræðu minni áðan, víðtækt samráð í þessari vinnu sem er til fyrirmyndar. Ég segi bara fyrir mitt leyti að þetta er mikilvægt mál sem skiptir alla eldri borgara máli og ég ætla svo sannarlega að vona, eins og ég hef sagt hér nokkrum sinnum, að þessu verði hrint sem fyrst í framkvæmd. En málflutningur hv. þingmanns varðandi hagsmunafulltrúann á vissulega rétt á sér en málin eru þó engu að síður ekki sambærileg, ekki hægt að bera þau saman með þessum hætti. En ég hefði svo sannarlega viljað heyra það frá ráðherra hvað hann sér fyrir sér með hagsmunafulltrúa eldri borgara, hvort þess megi vænta að það verði lagður grunnur í næstu fjárlögum að því að hann verði settur á laggirnar. Þetta eru spurningar sem væri mjög fróðlegt að fá svör við.