Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

myndlistarstefna til 2030.

690. mál
[18:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Jóhann Friðrik Friðriksson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Eins og raun ber vitni er hér verið að samþykkja í fyrsta skipti myndlistarstefnu fyrir Ísland og það er bara í eðli sínu stórmál og fagnaðarefni. Við erum að taka mjög þétt utan um menninguna en það er auðvitað vegferð. Þingmaðurinn nefnir hvata og ég get heils hugar tekið undir það. Eins og kemur fram í umfjöllun nefndarinnar kann vel að vera að það verði tekið sérstaklega tillit til þess í vinnunni fram undan, að það sé einhvers konar hvati til þess að kaupa list. Þess vegna var til að mynda þarft að benda á hvernig þessu er komið fyrir í Hollandi en þar getur fólk fengið til baka virðisaukaskatt. Ef við skoðum hvernig þessu er fyrir komið í löndunum í kringum okkur þá er allur gangur á því.

Ég held að það sé líka mjög mikilvægt að taka inn í þessa umræðu hvernig við reynum að tryggja list fyrir alla. Það vill auðvitað þannig til að þeir sem hafa mest milli handanna eiga kannski auðveldast með að fjárfesta í list. En að njóta listar ætti að vera mögulegt fyrir alla, óháð fjárhag eða hvernig þeir standa. Þess vegna finnst mér mjög spennandi að skoða hugmyndir um að það sé hægt að leigja tímabundið til sín list eða jafnvel fá hana lánaða án endurgjalds. Það er töluvert mikið um verk sem prýða hér opinberar stofnanir og svo má lengi telja. Ég held að þetta sé allt eitthvað sem við ættum að skoða og reyna að tryggja að það sé verulegur hvati til að ýta undir íslenska myndlist í sínu víðasta formi.