Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

myndlistarstefna til 2030.

690. mál
[18:30]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hans góðu viðbrögð. Það sem ég er að velta fyrir mér er kannski sérstaklega hugmyndin um umhverfislistaverk sem mér finnst að við mættum vera duglegri við að koma hér upp. Það væri þess konar hvatakerfi fyrst og fremst sem ég var að huga að, að menn gætu verið að starfa við stórt umhverfislistaverk, kannski mánuðum saman, og það væru hvatar í því fyrir sveitarfélög eða stórfyrirtæki að fjárfesta í slíku. Sjáum t.d. Sólfarið, hversu ómetanlegt það er fyrir okkar miðborg hér, og Eggið og Regnbogann við Leifsstöð. Þetta eru bara dæmi. Ég myndi vilja sjá fleiri umhverfislistaverk af þeirri stærðargráðu hér og sjá fleiri íslenska listamenn hafa burði og möguleika til að einbeita sér að slíku. Þess vegna hvet ég þá sem munu fara með þetta alla leið að endamarkinu að ígrunda leiðir til að byggja inn frekari hvata fyrir myndlistarmenn að ráðast í stór og metnaðarfull verkefni. Væri hv. þingmaður reiðubúinn að veita okkur atfylgi við slíka hugmynd?