Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[18:54]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þó nokkuð við þetta frumvarp að athuga. Það eru ýmsar umsagnir sem benda til þess að ég sé ekki einn um það. Mörg sveitarfélög gera enn töluverðar athugasemdir við frumvarpið og þær breytingar sem á því hafa verið gerðar, og við það að ekki sé komið nægilega til móts við þau. Einnig hefur Landvernd komið fram með töluverðar athugasemdir.

Ég hjó eftir einu sem mig langar að spyrja út í varðandi þessa nefnd, sem er skipuð fulltrúum Skipulagsstofnunar og sveitarfélaga. Getur það gengið upp, ef upp kemur ágreiningur í nefndinni, að vísa honum einfaldlega til ráðherra? Hann gæti haft mjög eindregnar skoðanir á því sem á að fara fram, enda er málið sem er til umfjöllunar að öllum líkindum á forræði ráðherra.

Þess vegna langaði mig að fá upplýsingar um það hvort þetta sé raunverulega það sem standi til, og um það hvort ekki sé hægt að finna öðruvísi út úr þessu en að vísa ágreiningi til ráðherra til að hann leysi hann. Það hlýtur að þurfa að gera þetta öðruvísi.